Lögreglustjórafélagið að staðfesta eineltið?
Lögreglustjórafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem segir að Björn Bjarnason hafi eflt og styrkt lögregluna og réttarvörslukerfið í embættistíð sinni og átt gott og náið samstarf við lögreglustjóra landsins. Af ályktuninni má ráða að samskipti Björns Bjarnasonar, embættismanna í dómsmálaráðuneytinu og ríkislögreglustjóra hafi verið á allt öðrum nótum við lögregluembættið á Suðurnesjum heldur en við önnur embætti á landinu. Það rennir stoðum undir það sem áður hefur verið sagt af þeim yfirmönnum sem nú eru að hætta hjá lögregluembættinu á Suðurnesjum en þeir hafa talað um einelti gagnvart Jóhanni R. Benediktssyni og embættinu.
„Sama gildir um starfsmenn ráðuneytisins, sem hafa af ósérhlífni lagt sig fram um að aðstoða stofnanirnar í smáu sem stóru. Á sama hátt hefur embætti ríkislögreglustjóra verið boðið og búið þegar einstök lögreglustjóraembætti hafa þurft á aðstoð að halda í hvaða formi sem er,“ segir ennfremur í ályktun Lögreglustjórafélagsins.
Þetta er í hrópandi mótsögn við það sem Jóhann R. Benediksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum hefur sagt sem og aðrir yfirmenn embættisins, sem nú hafa sagt upp störfum.
„Það er óviðunandi að horfa upp á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og lögreglustjórann persónulega verða fyrir stöðugu einelti af hálfu dómsmálaráðherra og helstu ráðgjafa hans. Í því einelti hefur málefnalegum forsendum og faglegum vinnubrögðum verið kastað fyrir róða," var m.a. haft eftir eftir Eyjólfi Kristjánssyni, staðgengli lögreglustjórans á Suðurnesjum í fréttum nú fyrir helgi. Eyjólfur er einn þeirra þriggja lykilstarfsmanna embættisins sem sagt upp störfum ásamt Jóhanni R. Benediktssyni.
„Samskipti ráðuneytisins og embættisins hafa frá þeim tíma verið afar stirð. Embættið hefur á undanförnum mánuðum lagt sig fram við að vinna markvisst að lausn deilunnar og mætt kröfum ráðuneytisins um fjárhagslega aðgreiningu tollgæslu, lögreglu og öryggisdeildar meðan fagleg yfirstjórn þeirra yrði óbreytt. Sú vinna embættisins hefur ekki fengið hljómgrunn innan ráðuneytisins.
Ítrekaðar tilraunir yfirstjórnar embættisins til að bæta samskipti þess og ráðuneytisins hafa ekki borið árangur og er nú svo komið að algjör trúnaðarbrestur er á milli aðila að mati embættisins. Við þær aðstæður er ljóst að embættið kemur ekki til með að njóta sannmælis og sanngjarnrar meðferðar innan ráðuneytisins,“ segir í yfirlýsingu sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi frá sér fyrir helgi er hann tilkynnti uppsögn sína.
Af ályktun Lögreglustjórafélagsins má því ráða að samskipti Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðuneytis og Ríkislögreglustjóra við Lögregluembættið á Suðurnesjum hafi verið á allt öðrum nótum en við önnur embætti á landinu.
VFmynd/elg: Frá fjölmennum starfsmannafundi þar sem Jóhann R. Benediktsson og þrír aðrir lykilstarfsmenn embættisins greindu frá uppsögn sinni.