Lögreglumönnum fækkað í meðan þörfin fyrir þá eykst
Lögregluembættin eru svelt á meðan aukin þörf er fyrir lögreglu, sér í lagi í ljósi þess uppgjörs sem íslenska þjóðin krefst að fram fari í kjölfar bankahrunsins. Niðurskurðartillögur ríkisvaldsins þýða fækkun um 12 – 13 lögreglumenn við Lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum.
Þetta segir í ályktun sem samþykkt var í gærkvöldi á félagsfundi í Lögreglufélagi Suðurnesja. Í formála að ályktuninni segur m.a. að í október 2008 hafi álag á lögreglu aukist til muna vegna bankahrunsins og þeirrar ólgu og ringulreiðar sem því fylgdi.
„Á eftir koma afbrotin, en það er óumdeilt að á tímum kreppu aukast afbrot og þar með verkefni lögreglunnar. Þetta staðfestist í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra. Ætla má að afleiðingarnar séu ekki komnar fram af fullum þunga og enn eigi eftir að bæta í, s.s. vegna örvætningar og þunglyndis. Verkefni lögreglu munu aukast til muna og undarlegt að ætla til þessa lægri fjárheimildir,“ segir í álytkuninni.
Formálin og ályktunin hljóðar svo:
„Formáli
Lögregluembættum landsins er ætlaður 10% niðurskurður á næsta ári, á sama tíma og aðrar stofnanir sem sinna velferð almennings sleppa með 5 til 7,5 % niðurskurð. Lögreglan er ekki ókunnug rekstrarþrengingum og hefur þurft að búa við þröngan kost til margra ára. Við tókum ekki þátt í þenslu síðustu ára. Við sameiningu lögreglembætta áramótin 2006/2007 hafði framkvæmdarvaldið ekki þá sýn sem til þurfti til að skynja að breytingar hafa kostnað í för með sér, þrátt fyrir ábendingar þar um, byggðar á reynslu nágrannaþjóða um slíkt. Þessu fylgja því enn frekari þrengingar. Við lögreglumenn teljum lítið sem ekkert svigrúm vera til frekari niðurskurðar. Lögreglan verður að teljast til einna mikilvægustu grunnstoða samfélagsins, nú þegar harðnar í ári. Þegar aðrar velferðarstofnanir anna ekki verkefnum sínum þýðir það um leið aukin verkefni fyrir lögreglu. Lögrelgan er öryggis og varaventill þjóðarinnar. Þegar allt er farið í þrot tekur lögreglan við.
Fáliðaðri lögreglu, með of miklu starfsálagi til lengri tíma, var á útmánuðum 2007 boðin launaleiðrétting í formi 30.000,- króna mánaðarlegrar álagsgreiðslu, enda stóð lögreglumönnum ekki til boða þátttaka í rússibanareið þennslunnar, og því almennt litið á þetta sem leiðréttingu. Þarna var hafinn flótti úr stéttinni, vegna aukins álags í starfi og lágra launa til lögreglumanna, sem með þessari leiðréttingu tókst að afstýra að einhverju leiti. Álagsgreiðslan var lækkuð í október s.l. í 15.000,- krónur á mánuði og frá 1. júní s.l. hefur hún að fullu verið felld niður. Þessu una lögreglumenn ekki.
Í október 2008 jókst álag á lögreglu til muna vegna bankahrunsins og þeirrar ólgu og ringulreiðar sem því fylgdi. Á eftir koma afbrotin, en það er óumdeilt að á tímum kreppu aukast afbrot og þar með verkefni lögreglunnar. Þetta staðfestist í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra. Ætla má að afleiðingarnar séu ekki komnar fram af fullum þunga og enn eigi eftir að bæta í, s.s. vegna örvætningar og þunglyndis. Verkefni lögreglu munu aukast til muna og undarlegt að ætla til þessa lægri fjárheimildir. Réttara væri að bæta í og styrkja lögregluna á þessum tímum, til samræmis við niðurstöðu allra rannsókna um aðstæður í kjölfar efnahagshruns.
Þess í stað eru embættin svelt . Miðað við niðurskurðarkröfur ríkisins mun þurfa að skerða þjónsutu lögreglunnar enn frekar, minnka öryggi borgaranna og ganga á starfsöryggi lögreglumanna.
Á það skal einnig minnt að yfirlýst markmið breytinganna á lögreglu, í byrjun árs 2007, var að Efla, Styrkja og Bæta þjónustu lögreglu.
Ætlum við borgurum, stofnunum og þingi þessa lands það að búa við skert öryggi, huglægt jafnt sem hlutlægt, lægra öryggisstig , og verri afgreiðslu mála með tilheyrandi óþæginum og töfum. Allt sökum fjársveltis. Hér á ekki að spara!
Ályktun:
Nú á tímum er aukin þörf fyrir lögreglu, sér í lagi í ljósi þess uppgjörs sem íslenska þjóðin krefst að fram fari í kjölfar bankahrunsins s.l. haust. Það gæti því orðið æði kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð ef lögregla nær ekki að sinna lögbundnum verkefnum sínum og þá helst forvarnarverkefnum. Þess í stað eru embættin svelt . Miðað við niðurskurðarkröfur ríkisins mun þurfa að skerða þjónsutu lögreglunnar enn frekar, minnka öryggi borgaranna og ganga á starfsöryggi lögreglumanna. Gangi niðurskurðartillögur ríkisvaldsins eftir myndi það þýða fækkun um 12 – 13 lögreglumenn við Lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum.
Því hvetur Lögreglufélag Suðurnesja ríkisvaldið til að endurskoða, í ljósi þess sem segir hér að ofan, þær niðurskurðarkröfur sem fram eru komnar á lögregluna í landinu.
Lögreglufélag Suðurnesja skorar á ríkistjórn Íslands og ganga til samninga við Landssamband lögreglumanna og tryggja lögreglumönnum viðunandi starfskjör, -öryggi og aðstöðu“.