Lögreglumenn urðu varir við skothvelli
„Lögreglumenn voru í morgun að störfum á Garðvegi, skammt frá Garði, vegna mannlausrar bifreiðar sem var illa staðsett í vegarkanti. Lögreglumenn urðu þá varir við skothvelli sem virtust koma frá fiskihjöllum þar skammt frá“. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var stödd á æfingarsvæði lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og var óskað eftir aðkomu hennar. Í ljós kom að um var að ræða hvellbyssur, sem settar höfðu verið upp við fiskihjallana, í því skyni að fæla burtu vargfugl.
Lokanir lögreglu á Garðvegi stóðu yfir í um eina klukkustund.