Lögreglumanni vikið úr starfi
Lögreglumanni á Keflavíkurflugvelli var á dögunum vikið frá störfum eftir að hafa keypt áfengi í Navy Exchange, tollfrjálsri verslun á Varnarsvæðinu. Með þessu athæfi þótti lögreglumaðurinn brjóta gegn starfsskyldum sínum enda um ólöglegan verknað að ræða. "Við lítum á þetta mál alvarlegum augum, svo sem vegna þess að maðurinn notaði lögreglubíl til að flytja áfengið út af varnarsvæðinu og var einkennisklæddur. Það var hins vegar bandarískur herlögreglumaður sem fór inn í verslunina og keypti áfengið, en þessir tveir menn voru saman á ferð," sagði Jóhann R. Benediktsson sýslumaður á Keflavíkurflugvelli í samtali við DV sem kom út í dag. Embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli gerði fyrstu athugun á málinu og þegar í ljós kom hvernig mál voru í pottinn búin og meint brot átti við rök að styðjast var manninum vikið frá störfum. Málið er nú komið til meðferðar embættis Ríkissaksóknara sem í framhaldinu tekur ákvörðun um frekari rannsókn og meðhöndlun málsins að öðru leyti. "Við sendum menn heim til þessa lögreglumanns og sóttum búninginn, eftir að ég hafði ákveðið að leysa hann undan starfsskyldunum," sagði Jóhann R. Benediktsson. Í frétt DV kemur fram að lögreglumaðurinn sem hér um ræðir hafi verið í afleysingum í lögregluliðinu á Keflavíkurflugvelli og sé ekki með próf úr lögregluskólanum.