Lögreglumálið: Ríkisendurskoðun hefur úttekt
Ríkisendurskoðandi hefur hafið stjórnsýsluúttekt sína á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og segir að reynt verði að flýta henni eins og kostur er. Þetta kemur fram á fréttavef Vísis.is í dag.
Forsætisnefnd Alþingis fól Ríkisendurskoðun að gera úttektina og á hún að ná til síðustu sextán mánaða, eða frá þeim tíma þegar öll lögregla á Suðurnesjum og tollgæslan á Keflavíkurflugvelli voru sameinuð í eitt embætti auk þess sem öryggisgæsla fór undir sama hatt.
Deilur hafa verið um þau áform dómsmálaráðherra að stía í sundur lögreglu og tollgæslu þannig að fyrrnefnda embættið heyri undir dómsmálaráðuneytið en hið síðarnefnda undir fjármálaráðherra. Bæði lögreglumenn og tollgæslan á Suðurnesjum hafa mótmælt hugmyndunum og þá situr frumvarp fjármálaráðherra vegna málsins fast í þingflokki Samfylkingarinnar sem er ósáttur við breytingarnar. Fram hefur komið í fréttum að flokkurinn vilji bíða úttektar Ríkisendurskoðunar á embættinu áður en afstaða verði tekin til breytinga á embættinu.
Frétt af www.visir.is