Lögreglumaður sendir ríkisstjórn tóninn
Lögreglumaður af Suðurnesjunum, Marinó Már Magnússon sendir ríkisstjórninni kaldar kveðjur vegna lágra launa sinna en hann tjáir sig á samskiptavefnum facebook. Hann segist þar frá raunum sínum í starfi sínu og lætur Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og Steingrím J. Sigfússon, finna til tevatnsins vegna kjaradeilu lögreglumanna og ríkisins. Í opnu bréfinu segir hann:
„Ég vildi koma kæru þakklæti til ykkar þá ákvörðun að heimila Gerðardómi að hækka laun mín úr 268 þúsundum í 282 þúsund. Eftir skatt þá gæti ég líklega boðið frúnni í bíó og við fengið okkur sitthvora samlokuna með skinku öðru megin. Það er nú bara þannig.“
Marínó segist hafa starfað sem lögreglumaður í 18 ár og gert það með innfæddri hugsjón og stolti sem endanlega brotlenti.
„Ég stóð við Alþingi í búsáhaldabyltingunni og var grýttur þannig að hjálmur minn skemmdist varanlega. Ég fór fyrir hópi 8 manna sem króaðist af við vesturgafl alþingis þar sem við vorum barðir og lamdir eins og í ofbeldisfullum tölvuleik. Ég fékk í höfuð mitt, saur, skyr, planka, múrstein og logandi kvist úr jólatré.“
„Ég var staddur inn í Alþingi þegar þú Steingrímur baunaðir yfir okkur lögreglumenn. Það vildi bara svo skemmtilega til að ég var nýkominn inn lúbarinn og þreyttur þar sem æstir mótmælendur voru nýbýnir að bauna á mig líka. Þannig ég var með tiltölulega breitt bak þegar þú hófst upp raust þína. En þú varst nú ekki eini alþingismaðurinn sem sá ástæðu til að bauna á okkur örþreyttu lögreglumennina. Þú getur nú huggað þig við það.“
Á ferli sínum hefur Marinó séð látin börn allt frá 8 mánaða og upp í 18 ára. Eitt sinni hélt hann í hönd á deyjandi 8 ára gömlum dreng sem keyrt var á í efri byggðum Reykjavíkur. hann segist ekki hafa tölu á slysum sem hann hafi komið að á sínum ferli og þeim sorglegu aðstæðum við það að fara inn á sundurbarin heimili þar sem fyrir liggur sundurbarin eiginkona og oft á tíðum sundurbarin börn líka.
„Ég hef nokkrum sinnum þurft að leita á slysadeild vegna meiðsla sem ég hef hlotið við störf.“
„Bara á þessu ári hef ég þurft að beita varnartækjum gegn æstum múgi oftar en einu sinni. Nú í sumar reyndi sannarlega á liðleika minn sem ég þakka reglulegri ástundun golfíþróttarinnar. En þá náði ég að fetta þannig upp á mig og náði þannig að verjast trítilóðum manni sem veittist að mér með búrhníf. Það endaði sem betur vel mér í hag í það skiptið. Veit ekki hvort ég verði svona heppinn næst. Vonandi.
Jæja ég ætla að láta staðar numið hér í bili. Ég verð því miður að hryggja ykkur með því að ég verð ekki á Austurvelli 1.okt n.k. þegar íslendingar fjölmenna og fagna komu ykkar til starfa á Alþingi. Ég er farinn að finna fyrir kverkaskít og ekki ólíklegt að ég verði frá vinnu þann daginn. Það var greinilega einhver flensupest að ganga í Borgartúninu í dag. Fleiri félagar mínir voru líka að kvarta undan einhverjum óþægindum. Líklega er þetta bara einhver óbeit í hálsi.“
Marinó Már Magnússon
Lögreglumaður 9513
Lögreglunni á suðurnesjum.
p.s. Jóhanna þinn tími kom. Okkar tími kemur bara síðar. Er það ekki?