Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lögregludagbókin um helgina
Miðvikudagur 19. maí 2004 kl. 17:02

Lögregludagbókin um helgina

Nóg var að gera hjá lögreglunni um helgina en aðfaranótt sunnudags var óskað eftir aðstoðar lögreglu að húsi í Grindavík. Þangað höfðu fjórir menn mætt, vopnaðir golfkylfum, og barið húsráðanda. Hafði hann verið barinn í vinstra læri en mennirnir voru farnir þegar lögreglan kom á staðinn. Vitað er um einn þeirra en þetta mun hafa verið uppgjör vegna kvennamála.

Klukkan 03.23 voru tveir menn handteknir á skemmtistað í Keflavík en þeir voru grunaðir um fíkniefnamisferli. Hafði þá sést til þeirra neyta fíkniefnanna og var þeim haldið á staðnum þar til lögreglan kom á staðinn. Höfðu þeir þá hvor um sig tæplega 1 gramm af meintu amfetamíni í fórum sínum. Voru þeir ölvaðir og vistaðir í fangageymslu.

Þrír voru kærðir fyrir of hraðan akstur um helgina, tveir á Reykjanesbraut og einn á Sandgerðisvegi. Annar sá sem tekinn var á Reykjanesbrautinni var á bifhjóli með farþega. Lögreglan mældi hann á 122 km hraða þar sem hámarkshraði var 90 km. Þegar lögreglan ætlaði að stöðva ökumanninn jók hann hraðann og stefndi í átt að Hafnarfirði. Barst þá liðsauki frá lögreglunni í Hafnarfirði og lokaði undankomuleið hjólsins og mældu hann í leiðinni á 168 km hraða.

Kl. 13.17 á sunnudaginn höfðu lögreglumenn afskipti af ökumanni sem keyrði bifreið á gamla veginum milli Sandgerðis og Garðs. Eftir nánari athugun kom í ljós að ökumaðurinn var aðeins 13 ára en eldra systkini hans hafði leyft honum að keyra. Foreldrum var kunngert um málið og systkinið kært fyrir brot á umferðarlögum.

Kl.15.06 var lögreglu tilkynnt um að búið væri að brjóta rúðu í anddyrinu að Landsbankanum í Grindavík þar sem hraðbankinn er til staðar. Þótti greinilegt að hópur ungmenna hafði verið á staðnum þar sem þau höfðu krassað á veggi, skilið eftir sígarettustubba og bjórdósir auk þess sem að kveikt hafði verið í miðum. Starfsmaður Landsbankans kom á staðinn og afhenti lögreglu upptöku úr eftirlitsmyndavél en á þeim myndum sjást þau ungmenni sem stóðu að þessu og verður rætt við þau.

Síðar um sunnudaginn hringdi maður í lögregluna en hann hafði verið að viðra hundinn sinn og tjáði lögreglunni að hundurinn hefði fundið dautt hross. Hrossið var frekar ungt, brúnt að lit og ójárnað. Sá sem tilkynnti fundinn kvaðst halda að hrossið hefði ekki verið búið að vera þarna lengi. Þeir sem geta gefið upplýsingar um hugsanlegan eiganda hrossins vinsamlegast hafði samband við lögregluna.

Klukkan 19.40 var síðan tilkynnt um þjófnað úr húsi við Hringbraut. Hafði þá þjófurinn farið inn um ólæstar bakdyr á meðan íbúi hússins var sofandi, og stolið þaðan digital myndavél og hleðslutæki.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024