Lögreglan opnar hverfisstöð á Ásbrú
Á undanförnum árum hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum aukið áherslu á hverfalöggæslu í umdæminu. Frá árinu 2009 hafa verið opnaðar hverfistöðvar í fjórum sveitarfélögum í umdæminu þ.e. í Sveitarfélaginu Garði, Grindavíkurbæ, Sandgerðisbæ og Sveitarfélaginu Vogum og nú í byrjun mars opnar sú fimmta á Ásbrú í Reykjanesbæ. Markmiðið með hverfalöggæslu er að auka og efla tengsl lögreglu við íbúa, félagasamtök og stofnanir ásamt því að auka þjónustu lögreglu við íbúa. Ljóst er að viðvera lögreglu í minni sveitarfélögum í umdæminu hefur mælst vel fyrir og vill lögreglan auka þjónustu sína við íbúa svæðisins og efla tengsl við samfélagið með því að opna hverfastöð á Ásbrú.
Í tilefni opnunar hverfisstöðvarinnar á Ásbrú verður lögreglan með opinn dag við Skógarbraut 945 á Ásbrú laugardaginn 3. mars n.k. frá klukkan 13:00 til 16:00. Til sýnis verða ökutæki lögreglu ásamt tækjum og ýmsum búnaði sem lögreglan notar við störf sín. Lúlli löggubangsi verður á svæðinu og mun taka lagið ásamt Krissa löggu klukkan 14:00. Boðið verður upp á veitingar.
Viðvera lögreglu í hverfastöðvum á Suðurnesjum er:
Ásbrú: 09:00 – 13:00
Garður: 13:30 – 15:30
Grindavík: 09:00 – 17:00
Sandgerði: 08:00 – 16:00
Vogar: 13:30 – 15:30