Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lögreglan: Möguleiki á áframhaldandi samrekstri með þjónustusamningum
Föstudagur 23. maí 2008 kl. 15:15

Lögreglan: Möguleiki á áframhaldandi samrekstri með þjónustusamningum


Ríkisendurskoðun mælir með því að hugmyndum dómsmálaráðuneytis um endurskipulagningu á Lögregluembættinu á Suðurnesjum verði hrint í framkvæmd. Ekki er þó loku fyrir það skotið að verkefnin gætu engu að síður verið áfram undir embættinu, en þá með gerð þjónustusamninga milli ráðuneyta.

Eins og fram hefur komið felst í því að tollgæsla og öryggisgæsla verði aðskilin löggæsluhluta embættisins. Tollgæsla verði færð undir fjármálaráðuneyti og vopnaleit og önnur flugöryggismál undir samgönguráðuneyti og nýtt félag sem mun sjá um rekstur Keflavíkurflugvallar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir m.a. :

Þó að verkefnum LRS verði breytt sýnist vel koma til álita að embættinu verði áfram falin dagleg stjórnun verkefna á sviði tollgæslu og flugverndar með þjónustusamningum. Þar yrði skilgreint umfang þjónustunnar og greiðslur fyrir hana. Það myndi án efa ýta undir gerð slíkra samninga kæmi í ljós að greinilegt hagræði væri af samrekstri verkefnanna hjá einu og sama embætti. Ákveðin fag- og fjárhagsleg rök eru bæði að baki núverandi skipulagi og kynntum breytingum. Verði af breytingum á verkefnum minnkar þó að líkindum ávinningurinn hjá LRS en eykst hjá þeim stofnunum sem taka við toll- og öryggisgæslu. Þann ávinning þarf að meta.

Ríkisendurskoðun telur reyndar að þær breytingar sem hér eru lagðar til eigi að ná til allra sýslumanns- og lögregluembætta landsins sem annast bæði lögreglu- og tollamál. Verði þær gerðar hjá LRS er eðlilegt að huga einnig að þeim hjá öðrum embættum.

Í skýrslunni er málið rekið og er komið inn á rekstrarvanda sem hefur verið viðloðandi embættið og fyrirrennara þess. Ræikisendurskoðun rekur hann m.a. til þess að verkefni hafi reynst dýrari í framkvæmd en sem aukatekjur af þeim námu. M.a. hafi brotthvarf Varnarliðsins haft áhrif þar á, en utanríkisráðuneytið hafi ekki aukið framlög til embættisins þrátt fyrir að vita af hinum auknu umsvifum.

Skýrslan segir að ljóst sé að hluti af fjárveitingu vegna öryggisgæslu hafi verið nýttur í tollgæslu- og löggæslu. Ef halda eigi sömu starfsemi á þeim sviðum þurfi að auka fjárveitingar um 315 milljónir til að rétta af reksturinn án frekari sparnaðaraðgerða.

Í niðurlagi skýrslunnar er vakið máls á ágreiningi milli embættisins og dómsmálaráðuneytis. Ráðuneytið var óánægt með verklag og fjámálastjórn og meints skorts á samstarfsvilja embættisins við að taka á vandanum.

Hins vegar hafi stjórnendur lögreglunnar á Suðurnesjum talið að ráðuneytið hafi ekki sýnt sérstöðu embættisins nægan skilning sem komi fram í ónógum fjárveitingum. Þá hafi lögreglustjóri lýst sig opinberlega andvígan breytingunum sem og margir stórnendur embættisins og stéttarfélög starfsmanna.

Að lokum segir í skýrslunni að aðilar hafi ákveðið að leggja ágreining sinn til hliðar og vinna í sameiningu að framgangi þeirra breytinga sem til stendur að gera á skipulagi og rekstri embættisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024