Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lögreglan lagði hald á heróín
Föstudagur 19. febrúar 2010 kl. 11:30

Lögreglan lagði hald á heróín

Á síðasta ári náðist mjög góður árangur í haldlagningu fíkniefna á Suðurnesjum. Samtals var lagt hald á 22,7 kíló af fíkniefnum af ýmsum toga en þar var amfetamín fyrirferðarmest eða rétt um 20 kíló. Kókaín var rúm 2 kíló af þeim efnum sem tekin voru á Suðurnesjum. 6000 e-töflur voru teknar, tæplega 1800 steratöflur, 661 kannabisplanta og áfram mætti telja. Fjölmörg önnur efni voru tekin í minna magni en þar vekur kannski mesta athygli að meðal efna sem voru tekin var heróín en hingað til hefur þetta stórhættulega efni ekki verið í umferð á íslenskum fíkniefnamarkaði. Hvers vegna heróínið er nú komið til landsins, skýrist kannski helst af því að nýir aðilar eru komnir inn á fíkniefnamarkaðinn. Þetta kom fram í viðtali við Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra á Suðurnesjum í Víkurfréttum í gær.


Samtals voru 158 einstaklingar teknir fyrir fíkniefnamisferli á síðasta ári, þar af 130 karlar. Íslendingar voru 128, fimm Pólverjar og 23 af öðru þjóðerni. Í flugstöðinni voru 26 einstaklingar teknir sem voru að koma frá Danmörku, 10 frá Hollandi og 16 frá öðrum áfangastöðum. Lögreglan var með 23 gæsluvarðhaldsfanga á síðasta ári í tengslum við fíkniefnamisferli og samtals voru þeir 345 daga á bakvið lás og slá. Framkvæmdar voru 48 húsleitir og 68 sinnum var leitað í bifreiðum.


Þeir sem hafa upplýsingar um fíkniefnamál geta hringt í gjaldfrjálst símanúmer hjá lögreglu, 800 5005. Lögreglan heitir 100% nafnleysi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024