Lögreglan kom súlu til bjargar
Verk lögreglunnar eru margvísleg eins og svo oft hefur komið í ljós. Síðast í gær voru laganna verðir kallaðir á Fitjar í Njarðvík þar sem súla tafði fyrir umferð. Súlan, sem er tignarlegur sjófugl og heldur sig í stórum hópum við Eldey undan Reykjanesi, virðist hafa tapað áttum þar sem hún hélt sig annað hvort í vegarkantinum eða hreinlega úti á miðjum vegi á Njarðarbrautinni á Fitjum.
Fljótlega hafði safnast á staðinn talsverður fjöldi fólks til að fylgjast með fuglinum. Góð ráð voru dýr, því fuglinn var ekki talinn vængbrotinn. Hann var frekar ringlaður og lítið gefinn fyrir þá athygli sem hann var að fá. Lögreglan tók til þess ráðs að kasta teppi yfir fuglinn, enda hafði hann þegar goggað í vegfarendur og vildi ekki láta nálgast sig.
Eftir tvær tilraunir með teppið tókst að koma því yfir súluna þannig að hægt væri að ná á henni taki. Tveir lögregluþjónar fóru síðan með fuglinn og slepptu honum á tjörnina á Fitjum. Þar virtist súlan una hag sínum ágætlega. Hún hefur a.m.k. ekki orðið til frekari vandræða í umferðinni, svo vitað sé.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson