Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lögreglan á Suðurnesjum: Skiptar skoðanir á stjórnarheimilinu
Þriðjudagur 1. apríl 2008 kl. 16:13

Lögreglan á Suðurnesjum: Skiptar skoðanir á stjórnarheimilinu



Björk Guðjónsdóttir, alþingismaður og forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, lýsti yfir stuðningi við uppskiptingu á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum á Alþingi í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Félagar hennar í stjórnarliðinu og þingmenn Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, Árni Páll Árnason og Helgi Hjörvar, lýstu sig allir mótfallna þessum umdeildu breytingum líkt og stjórnarandstæðingar. Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki, sagðist hlynntur breytingunum.


Í ræðu sinni á Alþingi í dag sagði Björk m.a.: „Er ekki eðlilegt að stjórnsýsla á Suðurnesjum sé með sama hætti og almennt gerist í landinu? Það er að færa ábyrgðina á tollgæslu undir fjármálaráðuneytið, öryggis- og vopnaleit til samgönguráðuneytis og lögregluna til dómstólanna [sic].“


„Fyrirkomulagið sem nú er viðhaft er arfur frá því að Varnarliðið var á Suðurnesjum og er sjálfsagt eðlilegt að endurskoða fyrirkomulagið og færa það í annað horf ef það er ekki að ganga upp eins og ætlast er til.“

Hún bætti þvi við að samstarf á milli aðila yrði áfram á faglegum nótum þó yfirstjórn sé mismunandi og bætti því við að hún sagðist skilja áhyggjur starfsmanna að mörgu leyti. Gott og farsælt starf hafi farið fram undir stjórn lögreglustjóra.


„Ég vona svo sannarlega að löggæslan á Suðurnesjum njóti hans krafta þó síðar verði, (sjá athugasemd neðst á síðu)“ sagði Björk að lokum og bætti því við að hún vonaðist til að málið fengi farsæla lausn.

Lúðvík, sem er jafnframt þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði í máli sínu að veigameiri rök þurfi til að honum snúist hugur. Þau rök að með breytingunum sé verið að færa embættið í sama horf og önnur embætti á landinu eigi ekki við. Það sé í raun meginregla í embættum landsins að þar fari sami maður með lögregluvald og tollvald, raunar sé höfuðborgarsvæðið eina undantekningin af átta embættum.

Aðspurður um það hvort að hann hyggðist styðja þessar breytingar þegar til kastanna kæmi sagði hann: „Ég met það þannig að til lengri tíma, ef þetta verði brotið upp, muni það skaða embættið og starfið sem er suður frá og ég mun ekki standa að því.“

Athugasemd blm.: Björk hafði samband við ritstjórn og vildi leiðrétta mismæli í máli sínu á þingi. Það var ekki ætlun hennar að skjóta orðunum: „...þó síðar verði.“ aftan við ræðu sína.