Lögregla verst allra frétta - rannsókn á viðkvæmu stigi
Lögregla verst allra frétta varðandi mál þar sem karlmaður um þrítugt sem handtekinn var í síðustu viku en hann var með rörasprengju og hlaðið skotvopn á heimili sínu í Reykjanesbæ.
Maðurinn var yfirbugaður af lögreglu á heimili sínu seint að kvöldi sunnudagsins 27. febrúar, í kjölfar þess að lögregla fékk ábendingu um undarlegt háttalag hans á opinni facebooksíðu hans.
Héraðsdómur Reykjaness gerði manninum að sæta gæsluvarðhaldi til 26. mars næstkomandi að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum. Héraðsdómur taldi skilyrði a og d liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2009 um meðferð sakamála uppfyllt í málinu. Úrskurðurinn hefur verið kærður til Hæstaréttar. Lögregla sagði að málið væri á viðkvæmu stigi og vildi ekki tjá sig að svo stöddu. Málið er í rannsókn en samkvæmt þeim liðum sem framlenging gæsluvarðhalds er byggð á er hægt að ætla að málið sé litið grafalvarlegum augum.
Í þessum liðum kemur fram að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Ennfremur segir að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.