Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lögregla mælir áfengismagn í nemendum FS
Föstudagur 12. nóvember 2004 kl. 13:49

Lögregla mælir áfengismagn í nemendum FS

Lögreglan í Keflavík lét nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja blása til að mæla alkóhólmagn á dansleik sem nemendafélag skólans stóð fyrir í gærkvöldi. Nemendur voru samankomnir á dansleik sem haldin var í framhaldi af söngkeppni N.F.S., Nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þegar lögregluna bar að garði. Einn nemandinn var handtekinn fyrir að veita lögreglu viðnám.

„Fáránlegar starfsaðferðir lögreglu“
Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, formaður N.F.S., sagði í samtali við Víkurfréttir að honum þætti starfsaðferðir lögreglu út í hött. „Lögreglunni hefur ávallt verið velkomið að heimsækja böll okkar til að halda uppi lögum og reglu en þetta eru fáránlegar starfsaðferðir.“ Gústav sagði að lögreglan hefði verið með ásakanir um að nemandi hafi verið undir áhrifum fíkniefna án allra sannana og að þær ásakanir hafi verið algjörlega út í hött. „Lögreglunni er óvelkomið að koma á böll okkar ef þeir ætla að vera hér á einhverjum veiðum,“ sagði Gústav sem var mjög reiður vegna framkomu lögreglu.

Látnir blása til að staðfesta hvort nemendur væru ölvaðir
Víkurfréttir höfðu samband við Karl Hermannson, yfirlögregluþjón hjá Lögreglunni í Keflavík, og sagði hann að þeir hefðu verið að athuga hvort ekki væri verið að framfylgja því að um áfengislausa skemmtun væri að ræða. Það uppátæki að láta nemendur blása sagði Karl að hafi verið til þess að staðfesta hvort fólk hafi verið ölvað eður ei. Vildi hann ekki tjá sig neitt frekar um málið.

Einn færður í fangageymslur
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að afskipti voru höfð af sjö ungmennum sem öll reyndust ölvuð og var vísað út af skemmtuninni. Fimm ungmennanna reyndust fædd 1988 og tvö 1987.
Einn aðili var afar ósamvinnuþýður, reyndi að komast undan lögreglu, neitaði að veita nauðsynlegar persónupplýsingar og var ógnandi í framkomu. Þurfti að færa hann í handjárn og flytja til lögreglustöðvar þar sem hélt ófriðnum áfram og olli eignaspjöllum. Hann var að lokum sóttur af foreldrum.
Lögregla vill taka það fram að almenn hegðan nemenda var ágæt og ekki varð vart við áfengisumbúðir innan dyra auk þess sem óþrifnaður var lítill og ofbeldisatvik komu ekki upp.

„Alveg nýtt fyrir okkur“
Kristján Ásmundsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja sagði við Víkurfréttir að þessi mál yrðu yfirfarin með lögreglu. „Þetta er alveg nýtt fyrir okkur en lögreglan verður að svara fyrir starfsaðferðir þeirra,“ sagði Kristján. Eftir því sem honum skildist skemmtu allir sér mjög vel. „Við eigum eftir að skoða þetta og fá upplýsingar frá okkar kennurum sem voru á staðnum hvað þetta mál varðar.“

Umboðsmaður barna: „Eðlilegt að lögreglan starfi í samráði við skólayfirvöld“
Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna á Íslandi, sagði að almennt talað þá væri lögreglu þetta heimilt með hliðsjón af áfengislöggjöfinni og sakhæfisaldrinum en gæti þó ekki fullyrt neitt um það þar sem hún vissi ekki málsatvik. „Mér finnst mjög sérkennilegt að lögreglan hafi mætt án vitundar skólayfirvalda en mér finnst það eðlilegt að lögreglan starfi í samráði við skólayfirvöld,“ sagði Þórhildur við Víkurfréttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024