Lögregla leitar dýraníðings
Illa haldinn hvolpur fannst í hrauninu við Kúagerði í hádeginu í dag, en göngufólk kom að greyinu þar sem hann hafði verið dysjaður lifandi undir nokkrum stórum steinum. Sjást aðstæður vel á meðfylgjandi mynd frá lögreglu hér að neðan.
Rétt sást í höfuð hvolpsins, sem er sennilega Dobermann blanda og um fjögurra mánaða gamall. Hann var mjög máttfarinn og gat m.a. ekki gengið. Hvolpinum var komið til lögreglu sem síðan kom honum á dýraspítala í Reykjavík þar sem hann er nú til meðferðar og lítur út fyrir að hann muni ná sér að fullu.
Þar sem hvolpurinn var ómerktur og er án örmerkis, er ekki vitað um eiganda. Lögreglan biður því þá sem hafa einhverja vitneskju um málið að hafa samband við sig, en um mjög gróft brot á dýraverndarlögum er um að ræða.
Sími lögreglu er 420 1800.