Lognið á undan storminum?
	Vindur gekk niður á Suðurnesjum nú undir kvöld og var nokkuð hægur vindur í Reykjanesbæ núna rétt fyrir kl. 18:00. Það var þó aðeins stund milli stríða á meðan vindurinn fer í suðvestanátt með kólnandi veðri, krapa og éljum.
	
	Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að lægðin sem veldur veðrinu fer svipaða leið og er af sama styrk og spáð var.
	
	Veðrið brestur fyrst á á Suðurnesjum og austur með suðurströndinni á milli klukkan 18 og 19.  Í kvöld og framan af nóttu verður sums staðar ofsaveður, meðalvindur allt  að 25-30 m/s, sérstaklega um landið norðvestanvert og á annesjum norðanlands undir miðnætti.
	 

 
	
				

 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				