Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 13. júlí 2000 kl. 10:39

Löggur á Evrópumót í körfubolta

Evrópukeppni lögreglumanna í körfuknattleik fer fram í Avila á Spáni dagana 17.-22. júlí nk. Frá Íslandi fara tíu leikmenn, ásamt Einari Einarssyni þjálfara og Óskari Halldórssyni liðsstjóra. Íslenska liðið er skipað þaulreyndum leikmönnum sem margir hverjir hafa einnig leikið í efstu deild, þ.e. Ellert Magnússon og Jóhannes Kristbjörnsson frá Keflavíkurflugvelli, Rúnar Árnason, Bergur Eðvarðsson og Nökkvi Már Jónsson frá Keflavík, Guðmundur Jónsson frá Akranesi, Björn Hjörleifsson „Bliki“, Jónas Helgason, Lúðvík Kristinsson og Guðbrandur Sigurðsson frá Reykjavík. Þess má geta að Guðbrandur er gamall körfuknattleiksdómari og kannast eflaust margir körfuknattleiksmenn við hann. Íþróttasamband lögreglunnar ákváð að kasta ekki til höndunum í þjálfaravali og fékk Einar Einarsson, þjálfara bikarmeistara Grindvíkinga, til að taka löggurnar í gegn. Einar hefur jafnframt leikið með fjölmörgum úrvalsdeildarliðum og að auki þjálfað úrvalsdeildarlið Hauka. „Leikmenn eru mjög metnaðarfullir en þeir eru búnir að æfa saman síðan í lok apríl. Þeir ná ágætlega saman og eru í mjög góðu formi. Meðalhæð og meðalþyngd eru sömuleiðis verulega fyrir ofan EPSON-deildar staðalinn eða um 192 cm og rúmlega 90 kg.“, sagði Einar með bros á vör. Það má því leiða líkur að því að það verði ekki auðvelt fyrir andstæðingana að brjótast í gegnum þessa íslensku víkingavörn. ÍSL hefur áður sent lið til Evrópumóts og náði liðið 5. sæti (9 lið) í Aþenu 1993. Andstæðingar að þessu sinni verða Belgía, Spánn, Holland og Litháen og eins og sjá má á fjöldanum mun íslenska liðið í það minnsta jafna besta árangur sinn.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024