Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 23. september 1999 kl. 14:48

LÖGGUFRÉTTIR

ÓPRÚTTNIR ÞJÓFAR Á FERÐ Fjórtán þjófnaðir voru kærðir til lögreglu í vikunni. Gemsar, reiðhjól og geislaspilarar virðast vera hátt skrifaðir hlutir á vinsældalistum þjófa á Suðurnesjum þessa dagana. Þetta minnir grandalausa Suðurnesjabúa e.t.v. á það að samfélag okkar er ekki eins öruggt eins og það var. Nú er ekki lengur óhætt að skilja eftir opin hús eða opna bíla, því yfirleitt eru þessir hlutir teknir úr ólæstum bifreiðum. Reiðhjólum þarf líka að læsa, þó þau standi í hjólageymslu eða bak við hús. Heimur versnandi fer. Mikið af þessum innbrotum og þjófnuðum tengjast fíkniefnum því algengt er að neytendur fjármagni neyslu sína með sölu á slíkum varningi. Rétt er að brýna fyrir fólki að kaupa aldrei gemsa af óviðurkenndum aðilum því mjög auðvelt er að rekja slíka síma þegar hringt er úr þeim. MARGAR LÍKAMSÁRÁSIR Fimm líkamsárásir voru kærðar til lögreglu um helgina. Tvær þeirra voru fyrir framan Stapann á aðfaranótt laugardags. Í öðru tilvikinu var um slagsmál tveggja karlmanna að ræða og annar þeirra endaði með bólginn kjálka. Í hinu tilvikinu sló karlmaður fyrrverandi sambýliskonu sína. Öðrum sambýlismanni varð höndin laus við konu sína í heimahúsi sömu nótt og hún fór úr kjálkalið eftir barsmíðar. Grindvíkingar létu ekki sitt eftir liggja í ofbeldisverkum og slógust utan við félagsheimilið Festi. Þar lauk slagsmálunum með þeim hætti að einn karlmaður var fluttur á sjúkrahús með stóran skurð og bólgur. BÖRN MEÐ BYSSUR Í síðustu viku varð 11 ára stúlka fyrir loftbyssuskoti á skólalóð Heiðarskóla. Hún marðist á læri. Skyttan var 10 ára skólabróðir hennar en atburðurinn átti sér stað eftir að skóla lauk. Svo virðist sem krakkar sem fóru til Spánar í sumar hafi margir hverjir fengið að kaupa loftbyssur þar. Hér á landi er bannað að eiga slíkar byssur nema að fólk hafi skotvopnaleyfi. Loftbyssur geta verið mjög hættulegar og ættu alls ekki að komast í hendur barna. Lögreglan hélt nýlega fund með sex ungum drengjum Heiðarskóla sem áttu loftbyssur, en tengjast ekki fyrrnefndum atburði. Á fundinum voru fulltrúar Félagsmálastofnunar og foreldrar drengjanna viðstaddir. Fimm byssur voru gerðar upptækar. Lögreglan heldur áfram að rannsaka málið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024