Lögfræðiálit Pentagon: Brot að kalla þoturnar heim án leyfis Íslendinga
Lögfræðingar bandaríska varnarmálaráðuneytisins komust að þeirri niðurstöðu á sjöunda áratugnum að það jafngilti broti á varnarsamningi Bandaríkjanna og Íslands að kalla orrustuþoturnar í Keflavík heim án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Þetta kom fram í fyrirlestri Vals Ingimundarsonar sagnfræðings á ráðstefnum um málefni smáríkja í Norræna húsinu í morgun, en frá þessu er greint á mbl.is.
„Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur hafnað grundvallaratriðinu í túlkun íslenskra stjórnvalda á varnarsamningnum, það er að einhliða burtkvaðning orrustuþotnanna jafngilti broti á varnarsamningnum,“ sagði Valur. „Bandarísk skjöl sýna hins vegar að lögfræðingar Pentagon höfðu þegar á sjöunda áratugnum komist að sömu niðurstöðu og íslensk stjórnvöld: að það myndi brjóta gegn nokkrum greinum hans - einkum þeim, sem snúast um stærð og samsetningu heraflans - ef þoturnar yrðu kvaddar brott án samþykkis Íslendinga.“
Valur vitnaði í skjalið þar sem segir: „Komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að samþykki ríkisstjórnar Íslands væri nauðsynlegt áður en hafist yrði handa við að kalla heim orrustuflugvélasveitina ... Án samþykkis ríkisstjórnar Íslands gætu Bandaríkin ekki kallað orrustuflugvélasveitina heim án þess að brjóta gegn greinum III og IV í varnarsamningnum. Án slíks samþykkis myndu slíkar aðgerðir gefa íslenskum stjórnvöldum tilefni til að ógilda samninginn.“
Fyrirlestur Vals nefnist „Endalok „öryggissafélags“ Bandaríkjanna og Íslands?“. Þar rekur hann þróun samskipta ríkjanna eftir lok kalda stríðsins og fjallar sérstaklega um viðræðurnar um varnarsamninginn og deiluna um orrustuþoturnar.
Valur segir í fyrirlestrinum að til þess að draga úr spennunni milli Íslands og Bandaríkjanna hafi stjórn George Bush forseta ákveðið að allsherjarendurskoðun á herafla Bandaríkjanna næði ekki til Íslands eins og upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. „Því er það svo að á þessu stigi málsins mun samdráttur hermanna í Þýskalandi, Kóreu og Japan ekki hafa áhrif á Íslandi,“ sagði Valur. „Enn á ný er litið á Ísland sem sérstakt vandamál.“
Í febrúar á þessu ári voru P-3 Orion-eftirlitsvélar varnarliðsins sendar á brott héðan. Í fréttum þá kom fram að bandarísk stjórnvöld segðu að það fælist engin efnisleg breyting á varnarsamstarfinu í því að ákvörðun hefði verið tekin um að flytja kafbáta- og skipaeftirlitsvélar á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli af landi brott. Í fyrirlestri sínum fjallaði Valur um Orion-vélarnar, sem hafa síðan á sjöunda áratugnum verið helsta herfræðilega ástæðan fyrir því að hafa varnarliðið í Keflavík, og sagði að í einkasamtölum segðu bandarískir embættismenn að þær hefðu verið sendar á brott fyrir fullt og allt.
Fleiri fréttir á mbl.is