Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lögbanni Garðmanna vegna Garðvangs hafnað
Föstudagur 21. febrúar 2014 kl. 15:09

Lögbanni Garðmanna vegna Garðvangs hafnað

Hjúkrunarheimilið að Nesvöllum verður opnað 14. mars nk.

Beiðni Sveitarfélagsins Garðs til Sýslumannsins í Keflavík um að lagt verði lögbann við því að DS flytji hjúkrunarrými hjá hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði að hjúkrunarheimilinu Nesvöllum í Reykjanesbæ var hafnað. Sýslumaður tilkynnti þessa niðurstöðu í morgun.

Með þessu er ljóst að ákvörðun meirihluta stjórnar DS stendur, um að halda áfram starfsemi á Hlévangi en um leið að lögð verði niður starfsemi á Garðvangi, enda hefur DS ekki rekstrarheimildir frá ríkinu til þess að reka áfram bæði heimilin, eftir að Nesvellir taka til starfa.

„Það er afar gott að fá niðurstöðu í þessu máli. Þó svo að undirbúningi flutninga af Garðvangi og yfir á Nesvelli hafi verið haldið áfram á meðan á málarekstrinum stóð þá leiðir svona mál alltaf til þess að hlutir dragast eða ganga hægar en annars væri. Það hefur farið mikill kraftur, tími og orka í málareksturinn og gagnaöflun í kringum hann sem annars hefði nýst að fullu í að undirbúa það sem skiptir mestu máli, þ.e. flutningar fólksins yfir í ný og glæsileg húsakynni á Nesvöllum.
Aðbúnaður og aðstaða heimilisfólks mun gjörbreytast, einstaklingsrými verða margfalt stærri, salernis- og baðaðstaða á hverju herbergi, sameignarrýmin eru rýmri og betur búin og svo mætti áfram telja. Ég vona að þessum erjum milli sveitarfélaganna geti lokið hér með og menn staðið saman að því að bæta aðstöðu eldri borgaranna okkar og sveitarstjórnarmenn snúi sér sameiginlega að því að fá ríkið til að fjölga hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum,“ sagði Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar Reykjaensbæjar og stjórnarmaður í DS, Dvalarheimilum aldraðra á Suðurnesjum.

Stefnt er á formlega opnun hjúkrunarheimilisins á Nesvöllum 14. mars nk. og að íbúar muni flytja sömu helgi. Framkvæmdir eru á lokastigi í húsinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sjá tengdar fréttir:
http://www.vf.is/frettir/beidni-um-logbann-vegna-gardvangs-komin-til-syslumanns/60601
http://www.vf.is/frettir/oska-eftir-logbanni-a-akvordun-ds/60481