22 kynferðisafbrot á árinu


Alls komu 22 kynferðisbrotamál til rannsóknar lögregluembættisins á Suðurnesjum árið 2011 sem er svipaður málafjöldi og árið á undan. Brotin voru af margvíslegum toga og varða fjölmargar greinar kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga en frá þessu er greint í ársskýrslu lögregluembættisins sem nýlega kom út.

 Samkvæmt skýrslunni hefur áhersla verið lögð á að hraða rannsóknum kynferðisbrotamála enda málaflokkurinn í hópi forgangsmála skv. fyrirmælum ríkissaksóknara með ágætum árangri. Einnig hefur mikil áhersla verið lögð á að vanda til rannsókna kynferðisbrota hjá embættinu og þess má geta að af sex starfsmönnum rannsóknardeildar eru tvær rannsóknarlögreglukonur sem mun vera hæsta hlutfall kvenna í deild sem rannsakar kynferðisbrot hér á landi svo best er vitað.

Árið 2009 komu 23 kynferðismál til meðferðar alls. Fjögur þeirra voru nauðgunarmál sem féllu að fyrirmælum ríkissaksóknara og var meðalmeðferðartími þeirra 66 dagar. Þrjú þessara mála voru undir
tímamörkunum en eitt þeirra fór yfir.  

Árið 2010 komu 26 mál til meðferðar alls. Níu þeirra voru nauðgunarmál sem féllu að fyrirmælum
ríkissaksóknara og var meðalmeðferðartími þeirra 43,5 dagar. Sjö þessara mála voru undir tíma-
mörkum en tvö þeirra fóru yfir.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2011 komu 18 mál til meðferðar alls. Sex þeirra voru nauðgunarmál sem
féllu að fyrirmælum ríkissaksóknara og var meðalmeðferðartími þeirra 87,3 dagar. Eitt þessara mála
var undir tímamörkum en fimm fóru yfir.

Með vísan til fyrirmæla ríkissaksóknara um málsmeðferðartíma verður að hafa í huga að fleira kann
að skýra langan málsmeðferðartíma en langur rannsóknartími hjá lögreglu eða langur afgreiðslutími í
lögfræðideild.