Loðnuhrognafrystingu að ljúka
Það er búið að frysta um 600 tonn af loðnuhrognum hjá Saltveri ehf á vertíðinni og 200 tonn af loðnu. Frystingin stendur yfirleitt í svona 10 til 12 daga í mars og þá er harðbannað að fá flensu rétt á meðan. Ásgeir Þorvarðarson, framleiðslustjóri, Saltvers ehf segir að vel hafi gengið hjá þeim á þessri vertíð og það hafi verið um 60 manns í vinnu að jafnaði hjá fyrirtækinu.„Þetta hafa verið skólakrakkar að miklum hluta, hér hefur verið unnið á vöktum og þau hafa verið að vinna til klukkan tvö og þrjú á næturnar. Við erum alsæl með að hafa getað fengið þau í vinnu og þau hafa bjargað okkur með að geta klárað þetta", sagði Ásgeir. Saltver ehf gerir út Erling KE 140 á þorskveiðar og er aflinn úr honum saltaður hjá þeim. Aðspurður um það hvað sé framundan eftir loðnuvertíðina segir Ásgeir að áfram verði saltað úr Erling KE og kannski farið í rækjuvinnslu.„Það er ekki víst að það borgi sig fyrir okkur að fara í rækjuvinnslu núna vegna þess að markaðsaðstæður eru þannig. Innkaupsverð á rækju er allt of hátt núna miðað við söluverð á pillaðri rækju. Við ætlum að bíða og sjá þar til í apríl eða maí, hvort markaðaðstæðurnar breytast eitthvað", sagði Ásgeir að lokum.