Loðnubræðslunni í Sandgerði lokað
Öllum starfsmönnum loðnubræðslunnar í Sandgerði var sagt upp störfum í gær á fundi sem haldinn var með starfsmönnum. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er gert ráð fyrir að búnaður bræðslunnar verði tekinn niður og fluttur annað. Við þessar uppsagnir missa 5 manns atvinnu sína, en loðnubræðslan í Sandgerði hefur verið rekin þar um árabil. Ljóst er að lokun verksmiðjunnar er mikið reiðarslag fyrir Sandgerði, því nýlegar hafnarframkvæmdir fyrir tugmilljónir króna miðuðust m.a. að því að auðvelda loðnuskipum að landa.