Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ljósveita aðgengileg í Reykjanesbæ
Föstudagur 1. nóvember 2013 kl. 09:42

Ljósveita aðgengileg í Reykjanesbæ

Míla er langt komin með uppbyggingu á háhraðasamböndum á Suðurnesjum. Nú þegar er lagningu lokið í Vogum, Grindavík, Garði og Höfnum. Lagning er langt komin í Sandgerði og Keflavík, en Innri- og Ytri-Njarðvík eru á áætlun nú á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Áætlað er að verkinu ljúki fyrir lok þessa árs. Lagningu í Keflavík er ekki að fullu lokið, en vinna stendur yfir og er ætlunin að klára uppsetningu götuskápa í Keflavík fyrir lok ársins, en nú þegar hafa fjölmörg heimili í Keflavík möguleika á að nálgast háhraðasambönd um Ljósveitu Mílu í gegnum sitt fjarskiptafyrirtæki.

„Um 65% landsmanna geta nú tengst öflugu og hagkvæmu háhraðaneti Mílu, Ljósveitu. Nú þegar hafa um það bil 80 þúsund heimili um allt land verið tengd og hafa því möguleika á að nálgast háhraðaþjónustu hjá sínu fjarskiptafyrirtæki. Öll fjarskiptafyrirtæki geta haft aðgengi að Ljósveitu Mílu og hafa notendur möguleika á að komast í háhraðasamband sem veitir allt að 50Mb/s til heimila og 25Mb/s frá heimilum í internethraða. Mögulegt er að nýta allt að tvo myndlykla án þess að internethraðinn skerðist,“ segir Sigurrós Jónsdóttir, deildarstjóri samskipta hjá Mílu.  

Míla tók yfir uppbyggingu Símans á Ljósneti í öllum landshlutum frá og með septembermánuði 2013. Nafn Mílu á þjónustunni er Ljósveita en það er fjarskiptanet sem fer að mestum eða öllum hluta um ljósleiðara og er opið fyrir alla fjarskiptaaðila. Til að flýta fyrir lagningu í minni bæjarfélögum er fyrst um sinn settur upp búnaður fyrir Ljósveitu í símstöðvar. Sú aðferð er fljótvirk og þannig geta þeir sem búa í innan við þúsund metra línulengd frá viðkomandi símstöð tengst hratt og vel. Í seinni áfanga er settur niður götuskápur til að þétta kerfið og ná til þeirra sem út af standa, þar sem það á við.

Einfalt og hagkvæmt
Tenging Ljósveitunnar er einföld og hagkvæm fyrir viðskiptavini því sjaldnast þarf að breyta innanhússlögnum. Ekki er þörf á framkvæmdum á lóðum eða í húsum þeirra sem vilja tengjast því nýttar eru fyrirliggjandi lagnir ásamt nútímatækni, til að tengja heimilin við símstöð eða götuskáp. Þar tekur öflugur ljósleiðari við gagnaflutningnum og hraðinn bæði til og frá heimilum margfaldast.  

Með aðgangi að Ljósveitunni fá heimilin möguleika á verulega auknum gagnaflutningshraða. Aukinn gagnaflutningshraði Ljósveitu Mílu býður upp á móttöku á allt að fimm háskerpusjónvarpsstöðvum á sama tíma. Hraði og öryggi tengingarinnar skapar kjöraðstæður til fjarvinnu, afþreyingar og samskipta. „Hraði Ljósveitunnar er það mikill að streymi í tölvu hefur ekki áhrif á móttöku sjónvarpsefnis eða nettengdrar leikjatölvu og sjallsíma, svo dæmi séu tekin,“ segir Sigurrós.

Sigurrós bætir við að almenn notkun okkar á rafrænum gögnum hefur aukist jafnt og þétt og er hún ekki eingöngu bundin við tölvur og snjallsíma, því rafræn miðlun margvíslegrar afþreyingar er þegar mikil og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Nýverið kom í ljós að kvikmyndaveitan Netflix, sem Íslendingar nota í auknum mæli, yfirtekur þriðjung allrar bandvíddar í Bandaríkjunum á annatíma.  

Hraðar og öruggar tengingar eru því orðnar hluti af lífsgæðum nútímafólks og notendur Ljósveitunnar finna sannarlega fyrir auknum hraða, því bæði upp- og niðurhal taka mun skemmri tíma en hefðbundin ADSL tenging býður upp á.

Míla starfar eingöngu á heildsölumarkaði og veitir öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að netum sínum, þar með að Ljósveitunni. Til að kaupa þjónustu yfir Ljósveitu Mílu þarf að hafa samband við það fjarskiptafyrirtæki sem óskað er eftir að eiga viðskipti við. Á http://www.mila.is/adgangsnet/ljosveitan/vidskiptavinir/ má sjá þá þjónustuaðila sem veita þjónustu á Ljósveitu Mílu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024