Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ljósmyndari Víkurfrétta sagður byssumaður á gæsaveiðum!
Laugardagur 21. september 2002 kl. 17:56

Ljósmyndari Víkurfrétta sagður byssumaður á gæsaveiðum!

Neyðarlínunni var nú síðdegis tilkynnt um mann sem væri að skjóta gæsir á Mánagrund við Keflavík. Neyðarlínan kom tilkynningunni áfram til lögreglunnar í Keflavík sem þegar sendi vaska sveina til að hafa uppi á skyttunni, sem virtist vera vel vopnuð.Skömmu eftir að tilkynningin barst lögreglunni í Keflavík slysaðist ljósmyndari Víkurfrétta inn á lögreglustöðina í Keflavík til að sinna þar erindum. Eitthvað þótti bifreið Víkurfrétta svipa til lýsingar á þeirri bifreið sem vegfarandinn sagði byssumanninn á Mánagrund vera á og meira að segja númerið passaði.
"Varst þú að skjóta gæs úti á Mánagrund", spurði Halldór Jensson varðstjóri þegar okkar maður kom á lögreglustöðina.
Jú, okkar maður kannaðist við að hafa "skotið" gæsir en skotvopnið sem var notað reyndist ljósmyndavél. Okkar maður hafði séð stóran gæsahóp á Mánagrundinni og ákvað að "skjóta" nokkrum myndum af fuglinum. Vígalegt byssuhlaupið var ekkert annað en myndarleg aðdráttarlinsa ljósmyndarans. Lögreglumennirnir voru kallaðir aftur til stöðvar og ljósmyndari Víkurfrétta er frjáls maður!

Myndin: Þetta er hluti af myndarlegum gæsahóp sem nærðist á Mánagrund síðdegis og vegfarandi hélt að byssumaður væri að skjóta. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024