Ljósleiðari lagður í allan Grindavíkurbæ
Í gærmorgun hóf Míla framkvæmdir við ljósnet Símans í Grindavík. Framkvæmdunum fylgir nokkuð jarðrask því víða þarf að grafa ljósleiðara í jörð og jafnframt að setja upp 15 götuskápa víðs vegar um bæinn. Með Ljósnetinu fæst háhraðanettenging sem verður bylting fyrir Grindvíkinga.
Upphal og niðurhal tekur mun skemmri tíma og hægt að streyma tónlist og kvikmyndum, tengt allt að fimm háskerpumyndlykla fyrir sjónvarpið og verið með leikjatölvur og önnur nettengd tæki fjölskyldunnar í öruggu sambandi á sama tíma.
Framkvæmdir hófust í Austurhópi og Vesturhópi. Í fyrsta áfanga frá 4. júní til 13. júlí verða jarðvegsframkvæmdir við: Vesturhóp, Suðurhóp, Austurhóp, Árnastíg, Gerðavelli, Blómsturvelli, Efstahraun, Heiðarhraun, Leynisbraut, Selsvelli, Víkurbraut, Ránargötu og Austurveg.