Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ljósastaurar við Reykjanesbraut samræmast ekki Evrópustöðlum
Miðvikudagur 7. nóvember 2007 kl. 16:50

Ljósastaurar við Reykjanesbraut samræmast ekki Evrópustöðlum

Ný skýrsla EuroRAP, European road assessment programme, leiðir í ljós að ljósastaurar við Reykjanesbraut og víðar standast ekki Evrópustaðla og hafa aldrei verið árekstraprófaðir.

EuroRAP verkefnið snýst um það að meta öryggi vega og er verkefnið unnið af bifreiðaeigendafélögum í hverju Evrópulandi um sig. Hér á landi er það í forsjá FÍB og tæknistjóri þess er Ólafur Kr. Guðmundson, varaformaður FÍB.

Meðal þess sem sett er út á við ljósastaurana er að þeir gefa ekki alltaf eftir neðst við jörðina ef ekið er á þá, eins og gert er ráð fyrir. Þeir eru framleiddir hér á landi eftir bandarískri fyrirmynd, en Vegagerðin segir í tilkynningu á heimasíðu sinni að vinna standi nú yfir milli framleiðanda og breskra aðila um árekstraprófun.

Í svari Vegagerðarinnar kemur fram að þar á bæ hafi menn gert sér grein fyrir stöðu ljósastauranna sem athugasemdir hafa verið gerðar við.

Þar segir: „Frá því í sumar hefur verið í gangi vinna við að yfirfara ástandið. Hersla á boltum í svokölluðum brotstaurum reyndist ekki rétt og hefur það verið lagfært víða og unnið er að því að ljúka þeirri vinnu. Flestir staurarnir á Reykjanesbrautinni voru settir upp árið 1996 og þá eftir gildandi staðli, amerískum, þeir voru árekstrarprófaðir. Nýr Evrópustaðall var tekinn í notkun hér á landi árið 2000.

Rétt er í þessu sambandi að benda á að allar hindranir við vegi skapa hættu og meginreglan ætti að vera sú að setja ekki upp lýsingu með þessum hætti nema í þéttbýli þar sem ökuhraði er minni.

Í ljósi þessa alls hefur Vegagerðin einnig hafið vinnu við að skilgreina og semja leiðbeiningar um hvernig staura megi nota, hvaða vottun þeir þurfi að hafa og svo framvegis. Mismunandi er hvernig staura er rétt að nota og fer það eftir umferðarhraðanum og hvort um veg fari einnig gangandi, hjólandi eða ríðandi vegfarendur. Til dæmis má ekki nota brotstaura í þeim tilvikum. Einnig hefur verið ákveðið að gera það að skilyrði við útboð eða kaup á brot- eða krumpuljósastaurum að þeir séu vottaðir og uppfylli þar af leiðandi evrópska framleiðslustaðla.“

Loftmynd/Oddgeir Karlsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024