Ljósanótt hefur jákvæð áhrif á ímynd Reykjanesbæjar

Niðurstöður úr tveimur spurningakönnunum sem lagðar voru fyrir í janúar og febrúar sl. liggja nú fyrir en í tilefni af 20 ára afmæli Ljósanætur 2019 lagði menningarráð Reykjanesbæjar til að gerð yrði könnun á meðal íbúa á viðhorfum til hátíðarinnar.
 
Annars vegar var um að ræða vefkönnun sem var öllum opin á Facebook og sem send var í tölvupósti til nokkurra stórra fyrirtækja á svæðinu. Hún byggði á hentugleikaúrtaki og luku 977 einstaklingar við að svara könnunni. Einnig var lögð fyrir símakönnun sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og byggði hún á slembiúrtaki 1000 íbúa úr Reykjanesbæ og var svarhlutfall 48,5% en slembiúrtak gefur réttmætari mynd af skoðunum bæjarbúa heldur en hentugleikaúrtak. Símakönnunin samanstóð af 10 spurningum úr vefkönnuninni.
 
Megin niðurstöður voru eftirfarandi:
 
Mikið samræmi reyndist í niðurstöðum beggja kannana sem styrkir mjög niðurstöður vefkönnunarinnar.
Þegar hlutfall ánægðra var skoðað reyndust niðurstöður símakönnunarinnar heilt yfir heldur jákvæðari en niðurstöður vefkönnunarinnar.
 
86-89% þátttakenda í báðum könnunum reyndust mjög eða frekar ánægðir með Ljósanótt.
 
 
Jákvæðastir reyndust þátttakendur í garð samfélagslegra áhrifa af völdum hátíðarinnar. 82 - 96% töldu:
 
Hátíðina hafa jákvæð áhrif á ímynd sveitarfélagsins.
Hátíðina skapa samkennd meðal íbúa.
Viðhorf íbúa til hátíðarinnar vera jákvætt.
 
Yfir 80% töldu:
 
Hátíðina gefa ýmsum hópum tækifæri til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum.
Hátíðina gefa íbúum tækifæri til að upplifa nýja hluti.
Hátíðina hafa áhrif í lengri tíma en hún sjálf varir.
 
Tæp 60% töldu:
 
Ljósanótt gera Reykjanesbæ að betri stað til að búa á.
 
Rúm 50% töldu:
 
Að Ljósanótt hefði haft jákvæð áhrif á líðan þeirra.
Að dagskráin endurspeglaði væntingar íbúa.
 
Minnst sammála (49%) voru þátttakendur því að:
 
Íbúar hefðu tækifæri til að hafa áhrif á undirbúning hátíðarinnar.
 
Í vefkönnun var upplifun þátttakenda á hátíðinni rannsökuð sérstaklega.
 
Gengið er út frá því að upplifun á viðburðum sé ferns konar.
 
Tilfinningaleg – sem segir til um ánægju og tilfinningalegt mat á viðburðinum.
Vitsmunaleg – sem segir til um lærdómsáhrif viðburðarins.
Líkamleg – sem segir til um virkni og þátttöku í viðburði.
Nýbreytni – sem segir til um hvort litið sé á viðburðinn sem einstakan.
 
Tilfinningaleg, vitsmunaleg og líkamleg upplifun mældist, sem að meðaltali reyndist fremur hlutlaus. Upplifun nýbreytni sem sérstaks þáttar mældist ekki. Möguleg skýring á því er að þátttakendurnir í rannsókninni hafa flestir tekið þátt í hátíðinni endurtekið og því ekki víst að þeir upplifi beina nýbreytni í hvert sinn.
 
Það er mat rannsakanda að niðurstöðurnar hafi leitt í ljós ýmis sóknarfæri þrátt fyrir almenna ánægju með hátíðina. Ljósanótt sé auðlind sem enn eigi mikið inni.
 
Niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast inn í stefnumótun fyrir hátíðina, segir í fundargerð Menningarráðs Reykjanesbæjar.