Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ljósalagsdiskurinn væntanlegur
Föstudagur 30. júlí 2004 kl. 14:34

Ljósalagsdiskurinn væntanlegur

Úrslitakeppnin um Ljósalagið 2004 verður haldin föstudaginn 20. ágúst n.k. og mun hún fara fram í Stapanum í Reykjanesbæ.

Dómnefnd hefur valið 10 lög af þeim 50 sem bárust í keppnina og hafa höfundar sem og tónlistarmenn nú lagt lokahönd á verk sín og eru þau komin á geisladisk sem tónlist.is mun sjá um að gefa út. Gert er ráð fyrir því að diskurinn komi út eftir hálfan mánuð og því geta bæjarbúar  myndað sér skoðun á lögunum áður en lokakvöldið fer fram. Hægt verður að kjósa um besta lagið og því um að gera að næla sér í diskinn og klæða sig í dómarabúninginn.

Upptökur á disknum hafa að mestu leyti farið fram í hljóðveri Geimsteins og hafa söngvararnir notið þeirra forréttinda að spila með hljómsveit Jón Ólafssonar. Hljómsveitina skipa Jón Ólafsson, hljómborð, Friðrik Sturluson, bassi, Sigfús Óttarsson, trommur, Ómar Guðjónsson, gítar og Sigurður Guðmundsson, hljómborð, gítar og raddir.

Þá listamenn sem syngja inn á plötuna þarf vart að kynna en óhætt er að segja að þar sé sönglandslið Íslendinga á ferð. Meðal þeirra sem syngja inn á diskinn eru þau Hreimur Örn Heimisson og Berglind Bergmann, Helgi Björnsson, Regína Ósk, Ardís Ólöf og margir aðrir.

Keppnin í Stapanum verður með svipuðu sniði og í fyrra þar sem boðið verður upp á kvöldverð, þeir sem vilja vera tímanlegir í borðapöntunum geta hringt upp í Stapa og krækt sér í sæti á þessa stórkostlegu skemmtun. 

VF-myndir/ úr safni Víkurfrétta

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024