Litlar skemmdir á Guðrúnu Gísladóttur
Togskipinu Guðrúnu Gísladóttur var komið á réttan kjöl í gærkvöldi. Skipið virðist nánast óskemmt eftir að hafa legið á hliðinni í fjórtán mánuði. Haukur Guðmundsson, eigandi skipsins, er í Noregi og segir þá hlið skipsins sem sneri niður vera í mun betra ásigkomulagi en hann hafði þorað að vona og segir næsta skref vera að koma skipinu upp á yfirborðið. Það verði gert með sömu tönkum og notaðir voru til að rétta það af. Haukur býst við að þær aðgerðir taki tvær til þrjár vikur. Skipið segir hann skítugt, þakið sjávargróðri, og hluti eins og rafbúnað skemmdan, en annars sé það í góðu ástandi. Hann segir nú sé verið að gera við sáralítinn olíuleka, eins og hann orðar það, en að ekki stafi mengunarhætta af skipinu.
Rúv greindi frá.
Rúv greindi frá.