Litlar hreyfingar en mjög athyglisverðar
Land hefur risið á Reykjanesskaga um 2,5 sentimetra frá því í apríl. Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að landrisið sé ekki hratt en það sé víðáttumikið og sjáist um allan Reykjanesskagann.
Líklega þýðir þetta að það er kvika að safnst fyrir á svipuðum slóðum og var og hefur verið síðustu ár. Miðjan á þessu er undir Fagradalsfjalli, á slóðunum undir gosstöðvunum sem gusu 2021 og 2022.
„Það þarf alla vega að gera ráð fyrir að þetta haldi áfram og endi með öðru gosi, það er einn möguleiki sem er ekkert ólíklegur, en tímaskalinn er mjög óljós. Það geta verið mánuðir eða ár,“ segir Benedikt.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Víkurfréttir að enn sem komið eru þetta litlar hreyfingar en mjög athyglisverðar samt.