Lítill áhugi á dekri og djammi á Suðurnesjum
Landinn er eitthvað áhugalaus um Suðurnes þessa dagana. Af svæðinu berast bara fréttir um hörmungar í atvinnulífinu og viðleitni til að bjóða fólki í skemmtiferð Suður með sjó féll ekki vel í fólk. Skemmtiferð í „dekur og djamm“ í Garðinum í dag hefur verið aflýst vegna dræmrar þátttöku.
Sveitarfélagið Garður sendi út boðskort til fjölmargra aðila og bauð þeim að koma í skemmtiferð í Garðinn þar sem ferski vindar blása. Þar átti að kynna fyrir fólki marga af skemmtilegum möguleikum sem Reykjanesið hefur upp á að bjóða fyrir starfsmannafélög, vinnustaði, félagasamtök og vinahópa.
Brottför var áætluð frá Umferðarmiðstöðinni BSÍ síðdegis og svo átti að aka fólkinu heim í kvöld eftir að gert hafði verið vel við það í bæði mat og drykk.
Þessari skemmtiferð í Garðinn hefur sem sagt verið aflýst vegna dræmrar þátttöku. Ekki fæst skýring á áhugaleysinu eða hvort tengja má það umræðu um ástandið á Suðurnesjum.
Fall er fararheill, sagði Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, sem ætlar að senda út nýtt boð fljótlega með von um betri viðbrögð.