Lítil sól næstu daga

Þrátt fyrir frábæran sólardag í gær þá er rigningin mætt aftur á sinn stað en það er óhætt að segja að Suðurnesin hafi fengið vænan skammt af rigningu í sumar og reyndar líka í vetur. Inn á veðurspá vedur.is segir:

„Vaxandi sunnanátt, 8-13 m/s og fer að rigna með morgninum, en hægari og þurrt A-til fram á kvöld. Hæg norðlæg átt og lítilsháttar væta á N-verðu landinu á morgun, en suðvestan 3-10 m/s og stöku skúrir syðra. Hiti 10 til 18 stig að deginum, hlýjast NA-lands í dag, en á SA-landi á morgun.“

Í hugleiðingum veðurfræðings á vedur.is segir að í dag muni rigna megnið af deginum hér fyrir sunnan og þar segir einnig að helgarspáin sé lítt skárri en það er rigning í kortunum bæði laugardag og sunnudag. Þá lýkur hann hugleiðingum sínum á þessu; „Best er að segja sem minnst um veðrið næstu viku, því ekki virðist blessuð sólin ætla að sýna sig mikið.“