Lítið þokast í viðræðum við kröfuhafa
Reykjanesbær leggur til að rekstur Reykjaneshafnar verði aðskilinn
Viðræður við kröfuhafa Reykjanesbæjar standa nú yfir og í frétt á Vísi er haft eftir Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að lítið hafi gengið í þeim. „Það þokast ekki neitt,“ sagði hann. Stefnt hafði verið að því að ljúka viðræðum fyrir 15. desember næstkomandi. Skuldir bæjarfélagsins voru um 41 milljarður í lok síðasta árs.
Á Vísi kemur einnig fram að Reykjanesbær hafi lagt til að rekstur Reykjaneshafnar verði skilinn frá rekstri bæjarins. Með því myndi ábyrgð bæjarins á skuldum hafnarinnar falla niður. Þar segir einnig að komist Reykjaneshöfn ekki í sjálfbæran rekstur í framhaldinu komi til greina að kröfum verði breytt í hlutafé í Reykjaneshöfn.