Lithái og Breti teknir með 37 kíló af fíkniefnum
Þann 10. ágúst s.l. stöðvuðu tollverðir á Keflavíkurflugvelli rúmlega fertugan mann frá Litháen við komu hans til landsins frá London. Í fórum hans fundust um 24 kíló af fíkniefninu Khat, sem er afurð plöntu frá Norðaustur Afríku.
Í framhaldi handtók lögreglan á Suðurnesjum rúmlega fimmtugan Breta á gistiheimili í Keflavík, sem talinn var hafa verið samferðamaður Litháans. Í fórum hans fundust um 13 kíló af sama efni, samtals mun því vera um að ræða 37 kíló af fíkniefninu Khat. Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að allar líkur eru á að efnið hafi átt að senda til Kanada, en það hafi ekki verið ætlað til dreifingar á Íslandi. Við frekari rannsókn hefur komið í ljós að Bretinn kom til Íslands í ágústbyrjun 2010 ásamt öðrum Breta og að þeir hafi að öllum líkindum sent fjórar sendingar af Khat til Kanada, en óvíst er hversu mikið magn það var. Ekki er talið að mennirnir hafi átt samstarfsaðila á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem yfirvöld á Íslandi haldleggja fíkniefnið Khat, en efnið hefur verið þekkt á Norðurlöndum síðustu áratugi.
Rannsókn lögreglu á málinu er að ljúka, en báðir mennirnir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan 11. ágúst s.l. og rennur það út þann 20. ágúst nk.