Listaverkið Áttir við Flugstöð Leifs Eiríkssonar
- komið fyrir á nýjum stað fyrir utan flugstöðina
Listaverkið Áttir eftir Steinunni Þórarinsdóttur var í gær endurafhjúpað á nýjum stað. Við afhjúpunina klipptu listamaðurinn og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia saman á borða. Verkið stóð áður á verslunarsvæði inni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en vegna mikillar fjölgunar farþega undanfarin ár var það tekið niður um tíma. Í samráði við listamann hefur verkinu nú verið fundinn nýr staður fyrir utan komusal flugstöðvarinnar.
Að undangenginni samkeppni í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna varð verkið Áttir eftir Steinunni fyrir valinu á sínum tíma. Það var fyrst afhjúpað árið 2007 í tilefni af 20 ára afmæli flugstöðvarinnar og í kjölfarið á stækkunum og endurbótum sem gerðar voru á flugstöðinni á þeim tíma. Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, afhjúpaði verkið fyrst.
Verkið sýnir fjórar manneskjur steyptar úr áli. Þær standa á súlum úr stuðlabergi og snúa þær í höfuðáttirnar fjórar. Hæð verksins er því um 3 metrar og er það innan ramma sem er 3x3 metrar að flatarmáli. Við athöfnina sagði listamaðurinn:
„Það er ánægjulegt að búið sé að finna verkinu góðan stað hér við flugstöðina. Flugvellir eru áhugaverðir staðir, fólk kemur og fer, dvelur í stuttan tíma eða langan en allir eru á leiðinni eitthvert annað. Verkið vísar auðvitað sterkt til ferðalaga með því að horfa til höfuðáttanna. Það vísar líka til þess að öll getum við orðið áttavillt í lífinu og þá er nauðsynlegt að finna réttu leiðina.“