Leikfélag Kef nóv. 25
Leikfélag Kef nóv. 25

Fréttir

Listamaður lýsir Garðinn upp
Lisa Marie Kaftori listamaður frá Santa Barbara sem hefur afhent íbúum Garðs ljós.
Föstudagur 15. janúar 2016 kl. 12:23

Listamaður lýsir Garðinn upp

Listamaðurinn Lisa Marie Kaftori frá Kaliforniu hefur undanfarna daga unnið að því að afhenda öllum íbúum í Garði lítil ljós og er hugmyndin að fólk setji þau út í glugga á laugardagskvöld. Hún er einn fimmtíu listamanna sem taka þátt í alþjóðlegu listahátíðinni Ferskum vindum sem nú stendur yfir í Garði. 

Undanfarna daga hefur Lisa notið liðsinnis barna í Garði sem gengið hafa í hús og afhent íbúum lítil ljós. Hún segir mörg börn hafa tekið þátt í verkinu og hjálpað sér við dreifingu ljósanna. „Áður en ég kom á listahátíðina komst ég að því að í Garði búa um 1400 manns og mér tókst að útvega 1500 ljós og tók með mér hingað. Það var byrjunin á verkinu. Ég er alltaf með ljósin með mér og hef afhent fólki á förnum vegi. Þetta er falleg leið til að tengjast án orða. Flestir hér tala reyndar ensku en ég er hrifin af þessari hugmynd að geta tengst fólki án tungumáls á táknrænan hátt. Svo á laugardagskvöld þegar fólk verður með ljósin úti í glugga tengjumst við öll,“ segir Lisa sem hefur einnig beðið fjölskylduna sína heima í Santa Barbara til að kveikja á ljósi í glugga á laugardagskvöld.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Verkið ber heitið Bylgjur sjónarhorna + bylgjur ljóss og að sögn Lisu er hugmyndin að baki verkinu að skapa tengingar. „Sjávarföll eru þema Ferskra vinda. Enska orðið er „tides“ og ég komst að því að það á sér norrænar rætur. Mig langaði mikið til að koma með ljós í Garð og mundi þá að tæknin að baki blue LED ljósa var fundin upp í háskólanum í Santa Barbara þar sem ég bý. Þá áttaði ég mig á því að ég gæti bókstaflega komið með ljós frá Santa Barbara í Garð,“ segir Lisa. Með ljósinu hefur hún einnig afhent fólki lítið spjald með kíkjugati á sem hugmyndin er að nota til að sjá heiminn í öðru ljósi. Á spjaldinu eru upphafsorð úr Vísum Vatnsenda-Rósu sem er í miklu uppáhaldi hjá Lisu. 

 

Fá skemmtilegar spurningar frá börnum

Lisa fór ásamt japanska listamanninum Tokyo Maruyama í heimsókn í grunnskólann í Garði á dögunum og saman unnu þau að listsköpun með nemendum 4. til 10. bekkjar. Tokyo hafði safnað efnisbútum frá heimilum í Garði og nemendurnir hjálpuðu honum að gera úr þeim 400 metra langt reipi. „Þetta var skemmtileg samvinna hjá okkur og nemendunum. Svo fengu þau ljós afhent á eftir.“ Lisa segir samstarfið með nemendunum hafa verið einkar skemmtilegt og að þau hafi fengið margar skemmtilegar spurningar frá þeim. Í dag hitta þau svo nemendur leikskólans í Garði.

Ferskum vindum lýkur í næstu viku en þeir hafa staðið frá 15. desember. Lisa segir það hafa verið mjög ánægjulegt að taka þátt og dvelja í Garði. „Það hefur skapast góður andi meðal listamannanna og við höfum mikið unnið saman. Fólkið í Garði er mjög hlýtt, opið og áhugasamt um okkur listamennina. Garður er svo fallegur staður. Ég á eftir að sakna umhverfisins þegar ég fer heim til Santa Barbara.“

Nú um helgina verður leiðsögn um sýningar Ferska vinda og hefst hún klukkan 14:00 í sýningarsal við Sunnubraut 4 á laugardag og sunnudag. Farið verður með rútu um bæinn og er aðgangur ókeypis.

Dubliner
Dubliner