Vörumiðlun
Vörumiðlun

Fréttir

Lions með ókeypis blóðsykurmælingar
Miðvikudagur 13. nóvember 2013 kl. 12:38

Lions með ókeypis blóðsykurmælingar

- á föstudag í Grindavík og á laugardag í Reykjanesbæ og Vogum

Lionsfélagar efna til ókeypis sykursýkimælinga um allt land á næstunni í tilefni af alþjóðadegi sykursjúkra. Þar getur einn blóðdropi skipt sköpum en mælingin er ofureinföld og tekur skamma stund. Lionsklúbbarnir á Suðurnesjum og Lionessuklúbbur Keflavíkur standa að blóðsykurmælingum á Suðurnesjum.

Lionsklúbbur Grindavíkur verður með mælinguna í Nettó í Grindavík föstudaginn 15. nóvember kl. 13-16. Félagar í Lionsklúbbnum Keili í Vogum verða með blóðsykurmælingu í Iðndal 2 í Vogum á laugardag, 16. nóvemver, kl. 13-16. Lionsklúbbarnir í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði og Lionessuklúbbur Keflavíkur verða svo með blóðsykurmælingar í Nettó Krossmóa laugardaginn 16. nóvember kl. 13-16. Blóðmælingarnar eru styrktar af Lyfju.

Kostnaður einstaklinga og þjóðfélagsins í heild vegna sykursýki vex mjög hratt og í sumum löndum Evrópu fer fimmtungur heilbrigðisútgjalda í þennan eina sjúkdóm og fylgikvilla hans. Við á Íslandi þurfum betri upplýsingar um umfang vandans og hvernig okkur gengur að halda fylgikvillum hans í skefjum. Einnig er mikilvægt að finna upp nýjar og skilvirkari aðferðir til þess að aðstoða fólk í baráttunni við þennan ævilanga og ólæknandi sjúkdóm. Þar getur tæknivæðing af ýmsum toga hjálpað en það kostar fjármuni núna. Fé sem á endanum mun spara þjóðfélaginu mikið í beinhörðum peningum svo ekki sé minnst á bætt lífsgæði og betri lífslíkur.

Lionshreyfingin á Íslandi hefur gefið út fræðslubækling um sykursýki, orsakir og afleiðingar, og margir klúbbar hafa boðið upp á ókeypis blóðsykursmælingar í sínum byggðarlögum. Samkvæmt skýrslum klúbba finnast yfirleitt í hverri skimun tveir til fjórir sem ástæða er að skoða nánar og senda til heimilislæknis.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024