Lions færði Grindavíkurkirkju eina milljón og hjálpaði jólasveinum til byggða
Lionsklúbbur Grindavíkur færði Grindavíkurkirkju eina milljón króna á dögunum. Á jólafundi klúbbsins, sem að vanda fór fram í Grindavíkurkirkju, afhenti formaðurinn Erling Einarsson formanni Sóknarnefndar Heiðari Hrafni Eiríkssyni eina milljón króna til viðhalds og viðgerða á kirkjunni.
Jólasveinar í Grindavík glöddu börn með jólapökkum
Lionsklúbburinn gerði þó fleiri góðverk í desembermánuði en með aðstoð Lions-manna tókst jólasveinunum, þrátt fyrir kafaldsbyl og ófærð, að færa börnum jólapakka á aðfangadag.
Jólasveinar hafa í meira en 40 ár glatt börn í Grindavík með jólapökkum á aðfangadag. Það leyndi sér ekki að börnin nutu heimsókna jólasveinanna ekki síður en foreldrar, ömmur og afar, sem enn á ný upplifðu sín bernskujól með heimsókn jólasveina.