Líkur hafa aukist á eldgosi
Getur hafist hvenær sem er á næstu dögum
Líkön sýna 15 km langan kvikugang sem liggur rétt norðvestan Grindavíkur. Vegna mikillar spennulosunar á svæðinu er ekki hægt að gera ráð fyrir að gosórói mælist áður en eldgos hefst.
Klukkan 18 lauk stöðufundi vísindamanna á Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands og Almannavarna þar sem farið var yfir túlkun á nýjustu gögnum sem borist hafa frá því á hádegi í dag. Unnin voru líkön út frá gervitunglamyndum og GPS mælingum. Líkön sýna að umfang kvikugangsins er verulegt og kvika er að nálgast yfirborð. Gangurinn nær frá Kálffellsheiði í norðri og liggur rétt vestan Grindavíkur og í sjó fram í suðvestur stefnu. Kvikugangurinn er um 15 km langur og kvikan liggur á um 800 m dýpi þar sem hún er grynnst. Það skal tekið fram að líkönin byggja á gervitunglagögnum sem eru um 12 klukkustunda gömul og því þarf að gera ráð fyrir að kvikan hafi færst nær yfirborði en 800 m. Út frá þessu má álykta að verulegar líkur eru á að kvika nái að brjóta sér leið til yfirborðs. Auknar líkur eru einnig á að kvika geti komið upp á hafsbotni.
Dregið hefur mikið úr jarðskjálftavirkni eftir hádegi í dag. Talið er að megin ástæða þess sé mikil spennulosun á svæðinu vegna jarðskjálfta gærdagsins og aflögunar vegna kvikugangsins. Vegna spennulosunarinnar er líklegt að kvikan eigi greiða leið til yfirborðs og því er ekki hægt að gera ráð fyrir því að gosórói sjáist á mælum áður en eldgos hefst.
Byggt á túlkun nýjustu gagna hefur Veðurstofan sent tilmæli til almannavarna að líkur á eldgosi hafi aukist frá því í morgun og að eldgos geti hafist hvenær sem er á næstu dögum. Líkön benda einnig til þess að kvika geti komið upp á syðri enda kvikugangsins rétt utan Grindavíkur. Líkur á eldgosi á hafsbotni hafa einnig aukist og búa þarf sig undir möguleika á sprengigosi. Hættusvæði hefur verið skilgreint út frá legu kvikugangsins.
Tilkynning frá náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands