Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Líkur á eldgosi aukast með hverjum deginum
Ljósmynd: Ingibergur Þór Jónasson
Miðvikudagur 27. desember 2023 kl. 12:44

Líkur á eldgosi aukast með hverjum deginum

Um 730 jarðskjálftar hafa mælst umhverfis kvikuganginn frá því á föstudaginn 22. desember, þar af mældust tæplega 40 jarðskjálftar stærri en 1,0. Stærsti skjálftin á tímabilinu mældist 2,1 að stærð þann 26. desember, norðan við Hagafell. Ef dýpi skjálfta er skoðað fyrir tímabilið eru þeir á um 4,0 km dýpi að jafnaði. Á sama tímabili (22. des þar til kl. 09:30 í dag) mældust um 140 jarðskjálftar í vestanverðu Fagradalsfjalli þar af fimm jarðskjálftar 1,0 og stærri, þeir voru að jafnaði dýpri en við kvikuganginn, eða á um 7,0 km dýpi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Land heldur áfram að rísa við Svartsengi og er hraðinn mjög svipaður og var fyrir eldgosið 18. desember. Þetta þýðir að kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, og eru líkur á að það leiði til annars kvikuhlaups og einnig eldgoss. Líkanreikningar benda til þess að um 11 milljónir rúmmetra af kviku hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og inn í kvikuganginn sem myndaðist þann 18. desember og endaði í eldgosi. Miðað við núverandi hraða á landrisinu mun taka um tvær vikur fyrir sama rúmmál að safnast í kvikuhólfið. Mikil óvissa er þó um hvenær þrýstingur í kvikuhólfinu verður nógu hár til að koma af stað nýju kvikuinnskoti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rétt er að benda á að kvikugangurinn sem myndaðist 10. nóvember náði um 15 km leið, frá Kálfafellsheiði í norðri og út í sjó suðvestan við Grindavík. Þetta þýðir að kvika hafi náð undir allt svæðið. Líklegasta upptakasvæði fyrir næsta eldgos er þó á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Áfram eru líkur á eldgosi sem aukast með hverjum deginum sem líður.

Hættumatskort sem gefið var út 22. desember er enn í gildi. Nýtt hættumatskort verður gefið út næsta föstudag, 29. desember.

Svona hafa jarðskjálftar síðustu níu sólarhringa raðað sér upp á svæðinu. Mynd: Skjálftalísa Veðurstofu Íslands