Líklegt að fólk hafi verið á Suðurnesjum fyrir landnám
Fornleifarannsóknir á landnámsskálanum í Höfnum síðastliðið sumar benda til þess að þarna hafi ekki verið um venjulegt kotbýli að ræða heldur einhverskonar ver líklega frá norrænum mönnum. Aldursgreiningar benda til þess að skálinn í Vogi sé frá því fyrir landnám eða frá tímabilinu 770 – 880.
Það sem styður þessa kenningu er sú staðreynd að ekkert fjós fannst við rannsóknirnar. Þarna hefur því ekki verið hefðbundinn landbúnaður þess tíma. En hvað var fólk þá að gera þarna?
Athyglisvert hvað ekki fannst
„Það er eiginlega athyglisverðast hvað ekki fannst,“ segir Dr. Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, aðspurður um það hvað merkilegast hafi verið við þessa fyrstu rannsókn á skálanum. Hann segir það athyglisvert að ekki hafi fundist neitt fjós, þrátt fyrir ítarlega leit.
„Það er athyglisvert að ekki fundust neinar tennur úr húsdýrum. Ef ekkert fjós finnst er tómt mál að tala um venjulegt bóndabýli. Þá er þetta eitthvað annað. Við fundum þarna bein úr kind, kýr og svíni. Spurningin um þau er þá hvort þessi dýr voru alin upp á staðnum eða hvort þetta eru leifar af skrínukosti. Þetta á eftir að koma betur í ljós,“ segir Bjarni. Hann telur að ef þessi bein séu leifar af skrínukosti og skepnuhald hafi ekki verið á staðnum þá sé ekki hægt að tala um að þarna hafi verið útvegsbýli. Þá hefðu þessi bein ekki átt að vera þarna heldur miklu meira af fiskbeinum, s.s. úr þorski.
Sóttu í hvíta gullið
„Vinnukenningin er núna sú að þessi skáli hafi verið ver sem er vísbending á nýtingu manna á landinu fyrir landnám. Þetta er hluti af þeirri keðju sem byrjaði þegar menn fóru að nýta sér eyjarnar á Norður-Atlantshafi. Þeir fundu þær fyrst, nýttu þær og námu þær síðan. Þetta mistókst hins vegar á Vínlandi en það var eini staðurinn sem hafði að geyma fólk fyrir,“ segir Bjarni.
Í vegg skálans fannst tönn sem Bjarni segir geta verið vísbendingu um að menn hafi dvalið þarna vegna rostunga- og hvaltanna. Í slíkum tönnum voru talsverð verðmæti eða „hvíta gullið” svokallaða, sem menn hafi flutt til sinna heimalanda, t.d. Noregs, og selt þar á markaði. „Þá er það mín tilgáta að Rosmhvalanes, sem þýðir Rostungsnes, að það heiti þessu nafni ekki vegna þess að þar hafi verið lifandi rostungar við landnámið heldur af þeirri ástæðu að þetta var fornt og löngu yfirgefið rostungalátur með fullt af beinagrindum rostunga sem menn gátu gengið að og tínt upp. Síðan tæmist þessi náma og það hvatti mjög til Grænlandsferða því menn voru búnir að komast að því að rostungurinn kom úr þeirri áttinni. Þeir voru örugglega búnir að sjá skýjafar á jökli, þang, fugla og annað sem gaf til kynna að í vestri væri meira land. Búsetan í Höfnun er kannski einn af lyklunum til þess að skilja Grænlandsferðirnar,“ segir Bjarni.
Bjarni segir framhald rannsóknarinnar í óvissu. „Það er umsókn inni hjá Fornleifasjóði. Ég er ekki bjartsýnn á að það gangi eftir núna vegna þess að ég er með fleiri umsóknir inni fyrir verkefni sem ég hef fengið styrki í áður. Þá ganga þeir staðir fyrir sérstaklega af því að ég er að klára þau verkefni,“ segir Bjarni. Hann er bjartsýnni á að fá styrk í verkefnið á næsta ári og segir að verið sé að vinna í málinu.
Þess má geta að lokum að hlutir þeir sem fundust við rannsóknirnar í Höfnum hafa nú verið settir upp til sýningar í Víkingaheimum.
---
Efri mynd: Frá fornleifarannsókninni í Höfnum síðasta sumar.
Neðri mynd: Þessi kvarnasteinn fannst í gólfi skálans en hann er sá heillegasti sem fundist hefur við fornleifauppgröft hér á landi.
VFmyndir/Ellert Grétarsson.