Líkamsrækt í boði Reykjanesbæjar
Æfingatæki utandyra fyrir íbúa bæjarins
Reykjanesbær stendur í miklum framkvæmdum þessa stundina og víða má sjá verktaka að störfum í bænum. Meðal þeirra framkvæmda sem ráðist hefur verið í er að reisa líkamsræktartæki utandyra fyrir íbúa bæjarins.
Nú þegar hefur verið reistur slíkur reitur með hinum ýmsu æfingatækjum í Innri-Njarðvík við Kirkjubraut. Reykjanesbær hyggst reisa þrjá slíka reiti til viðbótar en hinir þrír verða staðsettir í skrúðgörðunum í Keflavík og Njarðvík og á Ásbrú. Með þessu er Reykjnesbær fyrsta sveitarfélagið til þess að bjóða upp á slíka þjónustu hérlendis. Stefnt er að því að tækin verði komin í gagnið fyrir Ljósanótt en unnið er að uppsetningu um þessar mundir.
Hér sýnir Guðlaugur Sigurjónsson framkvæmdarstjóri hjá framkvæmdarsviði Reykjanesbæjar hvernig notast má við snjallsíma en þar má m.a. sjá hvernig framkvæma á æfingar á tækjunum.
Þarna má sjá þau sjö æfingatæki sem verða á völlunum. Notast er við gamla gervigrasið úr Reykjaneshöll sem undirlag undir tækin.