Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lík í gámavís flutt til Reykjanesbæjar
Laugardagur 16. júlí 2005 kl. 01:06

Lík í gámavís flutt til Reykjanesbæjar

Óvenjulegur farmur er í þann mund að leggja af stað til landsins frá Bandaríkjunum. Lík í gámavís verða flutt til landsins vegna töku á stórmyndinni Flags of our Fathers sem meðal annars verður tekin í Sandvík á Reykjanesi.

Líkin eru brúður sem munu verða notaðar í sviðsetningu á landtöku á Iwo Jima og í bardögum í fjöruborðinu. Heimildir Víkurfrétta herma að brúðurnar skipti hundruðum og veitir ekki af því mannfall varð gríðarlegt í hinum raunverulega bardaga um eyjuna Iwo Jima í síðari heimsstyrjöldinni.

Flutningaskip með búnað fyrir kvikmyndatökuna er væntanlegt í lok mánaðarins. Þar er von á innrásarprömmum, skriðdrekum og ýmsum örðum hernaðarbúnaði síðari heimsstyrjaldarinnar sem síðustu mánuði hefur verið safnað saman um Bandaríkin þver og endilöng. Hafa tækin bæði verið fengin að láni á söfnum og einnig hjá einstaklingum.

Vinna við undirbúning kvikmyndatökunnar hér á landi mun vera á eftir áætlun. Þá bilaði einnig flutningaskip ytra sem átti að koma með sviðsmuni til landsins. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta eru margir spennandi hlutir um borð og fágætir gripir sem notaðir verða við tökur á myndinni hér á landi.

Framleiðsla Flags of our Fathers kostar á sjötta milljarð króna og er íslenski hluti myndarinnar um þriðjungur af kostnaði eða um tveir milljarðar króna.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024