Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lífshættulegt er að stíga út á hraunið
Hrauntungan rennur úr Geldingadölum í Nátthaga. Mynd: Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
Mánudagur 14. júní 2021 kl. 10:27

Lífshættulegt er að stíga út á hraunið

„Lífshættulegt er að stíga út á hraunið. Farið því aldrei út á hraunið,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum sem rétt í þessu var að tilkynna að leið A upp að gosstöðvunum á Fagradalsfjalli væri lokuð. Fara þarf leið B sem er lengri og erfiðari og ekki fyrir óvana göngumenn. Fyrir óvana er hægt að ganga suður fyrir Borgarfjall og inn að Nátthaga og líta þar hraunið augum.

„Förum ekki með börn (6 ára og yngri) að gosstöðvunum ef hætta er á gasmengun. Ekki er ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum. Leitum upplýsinga um loftgæði á svæðinu áður en gengið er af stað,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hraun hefur tekið að renna úr Geldingadölum sunnanverðum niður í Nátthaga og þverar því gönguleið A eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá Almannavörnum. Órói í eldstöðinni er orðinn að mestu samfelldur og strókavirkni hefur minnkað og er nú stöðugt hraunflæði út úr gígnum.


Bílastæði:
Bannað er að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Leggja skal bílum á skipulögðum stæðum á grasflötum við veginn en aðkoma að bílastæðum er bæði úr austri og vestri.

Gönguleið:
Áætla má að gangan taki 3-4 klst. fram og til baka fyrir meðalvant göngufólk. Gönguleiðin er stikuð og greinileg en hefur reynst mörgum erfið. Nauðsynlegt er að vera í góðum gönguskóm og öðrum útivistarfatnaði.

Á safetravel.is eru upplýsingar um stöðuna hverju sinni uppfærðar reglulega yfir daginn. Vakin er athygli á gönguleið að útsýnisstað hefur verið breytt vegna hraunflæðis.

Loftmengun:
Yfirborðsmengun getur verið í jarðvegi, snjó og yfirborðsvatni vegna þungmálma og uppsöfnunar flúors (F). Mengun er mest í næsta nágrenni við gosstöðina. Vegna loftmengunar er ekki ráðlagt að dvelja lengi við gosstöðvarnar. Börnum, öldruðum, barnshafandi konum og þeim sem hafa undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma er ráðlagt frá því að fara á gosstöðvarnar ef einhver loftmengun er yfirvofandi.

Spá veðurvaktar um veður og gasdreifngu í dag:
Norðlæg átt 3-10 m/s og lítilsháttar slydduél eða skúrir norðanlands og einnig syðst á landinu, en yfirleitt þurrt á Vesturlandi.

Austan og norðaustan 5-13 á morgun, en 13-18 með suðausturströndinni síðdegis. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en rigning af og til um landið suðaustanvert. Hiti frá 3 stigum í innsveitum norðaustanlands, upp í 11 stig suðvestantil.

Áætlun viðbragðsaðila sem gæti breyst án fyrirvara:

• Frá miðnætti og fram eftir degi eru engir viðbragðsaðilar á svæðinu til að mæla gasmengun og bregðast við óhöppum.

• Gossvæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum. Hættusvæði við gosstöðvarnar hefur verið merkt inn á kort sem hægt er að nálgast á Facebook síðu lögreglu og á vedur.is

• Búast má við gasmengun vegna eldgoss á Reykjanesi og er fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðamælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá Almannavörnum.

• Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið.

• Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi.

• Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni.

• Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.