Lifnar yfir höfninni
				
				Heldur er að lifna yfir athafnalífinu í kringum höfnina í Grindavík og hreyfing komin á flotann. Togbátarnir hafa verið að fá sæmilegan afla en þeir hafa verið að landa frá 20-70 tonnum eftir 3-5 daga á veiðum. Frystitogararnir eru nú allir komnir úr fyrsta túr á nýju kvótaári og eru þeir með ágætan afla og verðmæti frá 40-50 milljónir á skip.Heldur hefur verið tregt hjá línu- og handfærabátum, en það virðist vera að lagast á línuna og hafa bátarnir verið að fá milli 1,5-2 tonn. Stóru línubátarnir eru flestir fyrir austan land og eru því fáar landanir af þeim í Grindavík í vikunni. Í gær var skipað út 1032 tonnum af mjöli frá Samherja og lýsisskip er væntanlegt eftir helgi.
				
	
				
					
						
					
					
						
					
				
				
				 								
			




 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				