Líflegar Víkurfréttir í lægðagangi
Víkurfréttir eru komnar út í rafrænu formi en prentaðri útgáfu blaðsins verður dreift á alla okkar dreifingarstaði á Suðurnesjum fyrir hádegi á miðvikudag.
Efni blaðsins í þessari viku er fjölbreytt að vanda. Njarðvíkingurinn Harpa Lind Harðardóttir er flutt til Noregs í þriðja og síðasta skiptið og segir að þar sé best að vera. „Hef alltaf fundið fyrir tilfinningunni að ég sé komin heim þegar ég kem til Noregs, get ekki útskýrt af hverju en þannig líður mér hér,“ segir Harpa Lind sem er flutt til 11 þúsund manna strandbæjarins Søgne í Suður Noregi, skammt frá Kristiansand. Þar býr hún með Stefáni Gíslasyni, manni sínum og þremur sonum.
Hossam Al Shmere er fæddur 30. júlí 1977 í Bagdad í Írak. Hann er einn fjölmargra sem leituðu til Evrópu eftir betra lífi, enda hefur þjóðfélagsástandið í Írak verið erfitt í mörg ár. Hann er kominn til Íslands og hefur eignast svokallaðan leiðsöguvin en að er Rannveig L. Garðarsdóttir eða Nanný eins og við þekkjum hana. Þau eru í blaði vikunnar.
Tvíburasysturnar Anna Lilja og Lára Ösp útskrifuðust af raunvísindabraut frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja í desember 2021 með góðum árangri. Anna og Lára fengu báðar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur en Anna Lilja var dúx skólans með meðaleinkunnina 9,15. Þær eru í blaði vikunnar hjá Víkurfréttum.
Sandra Friðriksdóttir útskrifaðist í síðustu viku úr fótaaðgerðafræði Heilsuakademíu Keilis og hlaut hún 9,65 í meðaleinkunn sem er sú hæsta í sögu skólans meðal útskriftarnema fótaaðgerðafræðinnar. Hún er líka í Víkurfréttum í þessari viku.
Í blaðinu er fjallað um pólitíkina í Reykjanesbæ, tekist á um Suðurnesjalínu 2 og þá eru fastir liðir eins og aflafréttir og pistill um 150 ára afmæli Stóru-Vogaskóla á sínum stað. Einnig Lokaorð, Jón Steinar og skemmtileg teikning Díserlu.