Líflegar umræður á kvennaráðstefnu
Um 60 konur sóttu ráðstefnuna Konur- Aukin áhrif á vinnumarkaði, sem var haldin í Listasafni Reykjanesbæjar í gær.
Með verkefninu var höfðað til kvenna í áhrifa- og stjórnunarstöðum á Reykjanesi og komið inná þá þætti er skipta máli þegar tekist er á við ábyrgð og stjórnun á atvinnumarkaði. Á svæðinu, eins og annars staðar á landinu, er hlutur kvenna á því sviði óverulegur þrátt fyrir að hlutfallið sé að jafnast hægt og bítandi.
Ráðstefnan sendi frá sér ályktun þar sem tekið er undir málflutning forystukvenna ýmissa starfsstétta, sem að undanförnu hafa gagnrýnt fæð kvenna í stjórnum fyrirtækja og samtaka, einkum lífeyrissjóða.
Fundurinn krefst þess að konum verði þegar fjölgað í stjórnum sjóðanna, í samræmi við fjölda kvenna í viðkomandi lífeyrissjóðum.
Fundurinn fór afar vel fram og skemmtu viðstaddar sér hið besta yfir tölum fyrirlesara auk þess sem líflegar umræður mynduðust. Ráðstefnunni lauk með léttri skemmtidagskrá þar sem Birta Sigurjónsdóttir söng við píanóundirleik Steingríms Karls Teague auk þess sem Hlín Agnarsdóttir kom fram.
VF-myndir/Þorgils