Lífið, dauðinn og kreppan - séra Sigurður Grétar á Útskálum í viðtali
Mikil afmælishátíð var haldin að Útskálum um nýliðna helgi þegar 150 ára afmæli Útskálakirkju var haldið hátíðlegt. Kirkjustaðurinn Útskálar á sér þó mun lengri sögu en skriflegar heimildir eru til um kirkju að Útskálum frá því um 1350. Sóknarprestur að Útskálum er séra Sigurður Grétar Sigurðsson og heldur hann utan um líflegt kirkjustarf í Útskálaprestakalli en undir prestakallið heyrir Útskálasókn og Hvalsnessókn. Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, tók hús á séra Sigurði Grétari og settist með honum á fremsta bekk í hinni öldnu kirkju Garðmanna og ræddu þeir um lífið í sókninni, óvenju mörg andlát og kreppuna í ýmsum myndum.
Trúfastur hópur sem stendur fast við sína kirkju
- Hvernig er að þjóna að Útskálum?
„Það er mjög ánægjulegt. Ég er búinn að vera hérna núna í rúmlega eitt og hálft ár. Maður hefur lært mikið og vonandi þroskast eitthvað. Þetta er mjög ólíkt því sem ég þjónaði áður fyrir norðan. Hér finnur maður að það eru tvær myndugar litlar sóknir í sjálfstæðum bæjarfélögum og tvær félagslegar einingar. Maður verður stundum svolítið þeytispjald á milli sóknanna. Það er mjög trúfastur hópur hér sem stendur fast við bakið á kirkjunni. Það finnur maður vel. Hér að Útskálum er töluverður hópur sem ber sterkar tilfinningar til þessarar kirkju og þessa staðar. Af og til, sérstaklega á vorin og haustin, kemur hingað fólk annars staðar frá í messu sem heyrði hana auglýsta í útvarpi eða sá í Mogganum. Þetta er fólk sem á einhverjar minningar tengdar þessari kirkju. Ég man eftir nokkrum dæmum þar sem fólk kemur í hárri elli hingað og dregur svolítið andann til að rifja upp minningar“.
Bæði þorps- og sveitakirkja
„Margir hafa komið hingað og viljað sjá kirkjuna eftir endurbæturnar sem þykja hafa heppnast mjög vel. Ég er pínu sveitakall í mér og líkar það vel og finnst ánægjulegt að þjóna í kirkju sem er bæði sveitakirkja og einnig þorpskirkja, sem Útskálakirkja er. Hún er þannig staðsett í Garðinum og Garðurinn liggur eins og hann liggur. Byggðin er blanda af þorpi og sveitaandrúmslofti.
Það er merkilegt, og kannski hugsar maður ekki nóg um það, en þessi staðreynd að þjóna á stað og predika í kirkju, annast helgihald í kirkju og þjónusta söfnuð í gleði og sorg, í húsi sem margar kynslóðir hafa komið saman í í sama tilgangi. Og áður en þetta hús var reist, þá hefur verið á þessum stað prestþjónusta um aldir. Það er töluverð upplifun að finna sig hluta af þeirri sögu en kirkju er getið að Útskálum á fjórtándu öld“.
Áberandi í sögu Suðurnesja
Útskálakirkja er með eldri kirkjum á landinu og þar var fagnað 150 ára afmæli um liðna helgi. Þá er gamla prestsetrið á Útskálum elsta standandi prestseturshús á landinu, byggt 1889. Það var séra Hjörtur Magni Jóhannsson, nú Fríkirkjuprestur í Reykjavík, sem síðastur bjó í húsinu. Útskálar eru áberandi í sögu Suðurnesja og þar var t.a.m. Sparisjóðurinn í Keflavík stofnaður fyrir rétt rúmum 100 árum.
Óvenju margar útfarir
- Hvernig er daglegt líf prestsins? Ég hef fyrir því heimildir að frá því þú komst til starfa í Útskálaprestakalli hafi verið þar óvenju margar útfarir.
„Jú, það er ekki hægt að neita því að árið 2010 var mjög strembið ár. Það var fyrsta heila árið sem ég var hérna þannig að ég vissi nú ekki alveg hvaðan á mig stóð veðrið. Það var mjög mikið um andlát, miklu meira en í meðalári. Eins voru mjög mörg sorgleg mál, slys og alvarleg veikindi þar sem fólk var að deyja langt fyrir aldur fram, mjög hátt hlutfall“.
-Þetta hlýtur að taka á, nýbyrjaður á nýjum stað?
„Já. En það getur bæði haft kosti og galla að vera nýkominn. Þetta hefði verið enn verra fyrir mann sem einstakling ef maður hefði verið ný vígður. Ég er hins vegar búinn að vera prestur í rúm 12 ár og því ekki reynslulaus. Kosturinn við það að vera tiltölulega nýkominn er sá að þá er maður ekki kominn í eins mikil persónuleg tengsl við þá sem eru að kveðja, eins og ef maður væri búinn að vera í 10 ár og væri að þjónusta persónulega vini og annað. Gallinn á móti er að maður er ekki nægilega vel inni í ættartrjánum og tengslunum.
Presturinn er nú þannig að hann finnur ekki hlutina á sér og hvar þörfin er brýn. Þess vegna er svo mikilvægt, eins og oft er, að fólk veki athygli prestsins á einhverjum aðstæðum, sem það telur að presturinn geti þjónustað inní.
Þegar það verða andlát, þá hafa þau stundum langan aðdraganda og stundum stuttan. Stundum er presturinn kominn inn í mál áður en andlát á sér stað en stundum er hann kallaður til við andlát. Þá er ákveðið ferðalag sem presturinn fer í með aðstandendum og menn fara saman í gegnum ákveðna hluti. Presturinn reynir að fylgja fólki í gegnum þetta ferli, en presturinn getur aldrei farið í sömu spor og syrgjendur. Maður gengur frekar við hliðina og reynir að þjónusta af einlægni og virðingu. Kistulagning, útför og ákveðin eftirfylgd hafa sinn gang. Eftirfylgdin er mjög misjöfn eftir aðstæðum. Stundum kveðjast menn nánast í kirkjugarðinum og það fer allt eftir aðstæðum“.
Nærfjölskylda hvers og eins er mikilvægasta stuðningsnetið en presturinn er alltaf tilbúinn til að styðja við þegar eftir því er leitað.
Ekki hægt að flýja sorgina
Séra Sigurður Grétar segir að fólk verði að fara í gegnum sorgina, maður geti ekki flúið hana og presturinn taki sorgina ekki frá fólki, þó presturinn geti verið samferðamaður.
Þá er einnig til í dæminu að sorg einstaklinga sé hreinlega deyfð niður með lyfjagjöf. Það sé einna helst gert í kjölfar stórra áfalla. „Það er náttúrulega bara frestun,“ segir Sigurður Grétar en ítrekar að það geti verið nauðsynlegt svo fólk fái svefn því ef fólk missir svefn í nokkrar nætur, þá minnkar öll mótstaða svo mikið því álagið er svo mikið. „Þetta getur verið nauðsynlegt í samráði við lækni, en maður losnar ekki við sorgina þannig“.
Rannsóknir hafa sýnt að yfir 90% syrgjenda eru komnir í ágætis jafnvægi eftir ár frá andláti ástvinar. Svo er alltaf einhver hluti sem þarf að fá áframhaldandi og frekari fagvinnu til að vinna sig í gegnum sorgina. Svo er ekki óalgengt að þegar fólk fer í gegnum sorg og áföll þá ýfist upp eitthvað gamalt sem aldrei hefur verið unnið úr. Það eru ýmsir sem koma að því, s.s. prestar og einnig sálfræðingar á stofu sem hjálpa fólki í slíkri vinnu.
Kreppan bítur í sókninni
Eins og annars staðar á Suðurnesjum þá hefur kreppan einnig verið að bíta í sóknarbörn séra Sigurðar Grétars. Hann segist ekki hafa samanburð frá því fyrir kreppu í prestakallinu en ákveðinn hópur hafi leitað til sín í kreppunni og viðurkennir Sigurður Grétar að sá hópur sé of stór.
„Kjör öryrkja sem eru einir eru mjög bág og þá gildir einu hvort það sé kreppa eða ekki. Það má ekkert útaf bera og þeim eru oft allar bjargir bannaðar. Það er stærra pólitískt mál sem þarf að skoða frá mörgum sjónarhornum. Bæði frá sjónarhóli almannatryggingakerfisins og eins frá sjónarhóli afskipta, ef ég má orða það svoleiðis. Forsjárhyggja getur verið mjög neikvætt orð, en forsjárhyggja sem hefur það að markmiði að hjálpa fólki að komast af með lítið, getur verið mjög skynsamleg. Stundum eru aðstæður fólks þannig að það nær ekki að hafa yfirsýn yfir sín mál og sína hluti og þá verður oft miklu minna úr þeim krónum sem þó eru til skiptana en gæti kannski verið“.
Mörg úrræði fyrir atvinnuleitendur á Suðurnesjum
Það er skelfilegt ef fólk er ekki hvatt til vinnu og að koma sér út í atvinnulífið. Það er hins vegar margt í gangi hér á Suðurnesjum. Ég get nefnt Virkjun á Ásbrú og mjög mörg tilboð fyrir fólk sem býr við alls konar aðstæður. Í Virkjun er unnið feyki gott starf sem hefur vaxið mjög hratt. Þar er starf sem tengist sjálfboðaliðum og sjálfboðaliðar sem taka að sér hin ýmsu verkefni til að leyfa öðrum að njóta og njóta svo sjálfir. Það er til mikillar fyrirmyndar. Svo eru ýmis úrræði sem verið er að vinna í, félagsþjónustan, Vinnumálastofnun, umboðsmaður skuldara og fleiri. Allir þessir aðilar eru að reyna að hjálpa fólki að moka sig í gegnum þessa skafla. Þá skiptir líka máli fyrir fólk að leita aðstoðar fyrr en seinna“.
Að leggja stoltið til hliðar
„Stundum þarf að leggja stoltið til hliðar og leita eftir aðstoð, jafnvel bara til að gefa börnum sínum að borða. Það er fullt af fólki sem getur bara ekki hugsað sér að þiggja eitthvað slíkt. Ég hef nú stundum sagt við þetta fólk að það skuli bara gera það ef þörf er á en það geti SÍÐAN skilað því aftur þegar betur árar með því að styðja við Hjálparstarf kirkjunnar eða þá aðila sem hafa stutt við þá á einhverju ákveðnu tímabili í lífinu. Fólk getur litið á þetta þannig að þetta sé tímabundin aðstoð sem það þarf og það hafi það að markmiði að geta skilað henni til baka síðar, þegar það hefur tök á. Með þessari aðferð er fólk aðeins afslappaðra að þiggja“.
Stórhættulegt að setja 18 ára krakka á bætur
Séra Sigurður Grétar hefur ákveðnar skoðanir með unga fólkið sem er ekki á skólabekk og án vinnu, þá sem eru 16 til 18 ára og jafnvel upp í 25 ára aldur. „Það er í mikilli hættu. Ef ég verð misskilinn, þá fæ ég skammir. Ég hef hins vegar haldið því fram í erindum í hópum og af predikunarstól að það er stórhættulegt að setja 18 ára krakka á bætur. Það er bara stórhættulegt. Það verður að leita allra annarra leiða áður en þau eru sett á bætur, þó svo þau eigi rétt á því. Ástæðan er sú að það er svo mikilvægt á mótunarskeiði einstaklinga sem hafa færni, getu til vinnu eða náms, að þeir finni til samfélagsábyrgðar. Tökum sem dæmi einstakling sem býr í foreldrahúsum, á ekki börn og hefur mjög takmarkaða ábyrgð í lífinu, að ef viðkomandi einstaklingur fer allt í einu að fá svolítið af peningum fyrir ekki neitt, þá hefur maður heyrt of mörg dæmi um það að einstaklingum finnist þetta bara fínt, finnist þetta bara í lagi. Það hvetur mann ekki til að byggja sig upp, því þetta er oft svo mikil skammsýni. Mög margir sem eru bara 18 til 19 ára eru með mjög takmarkaða framtíðarsýn.
Þetta er að breytast nú með þeim hætti að nú verður öllum tryggð skólaganga upp að 25 ára aldri og það held ég að sé einn sterkasti leikurinn sem fólk getur gert ef það hefur ekki vinnu, að fara í skóla og leita sér að námi við hæfi því það eru ekki allir sem falla inn í hið hefðbundna norm eða hið almenna bóknám. Það eru mörg tilboð og það eru svo margir aðilar sem eru tilbúnir að hjálpa og leiðbeina og veita ráðgjöf. Hjálpa manni að finna rétta hillu í lífinu. Það skiptir máli að halda unga fólkinu í rútínu og halda því í virkni þannig að það finni að það er að vaxa og það er smá saman að byggja eitthvað ofan á og fer að sjá tilgang og markmið.
Maður hefur minni áhyggjur af einstaklingum sem verið hafa á vinnumarkaði og eru í tímabundnu atvinnuleysi. Þeir vita hvað er að vinna og vilja vinna og myndu stökkva á fyrsta tækifæri sem gefst.
Svo hins vegar, sem er mikið áhyggjuefni, er sá hópur sem er búinn með sinn bótarétt og búinn að vera atvinnulaus í þrjú ár eða lengur. Þá er svo mikil hætta á að fólk missi vonina. Þar held ég að Virkjun hafi gert mikið gagn. Inn á milli eru einstaklingar sem ganga þar í endurnýjun lífdaga.
Samfélagið hefur þroskast
-Hvað með þá sem eru komnir á þann aldur að þeim finnst vinnumarkaðurinn hafna sér?
„Ég held að viðhorfið gagnvart eldra vinnandi fólki hafi breyst til batnaðar á undanförnum árum. Það var æskudýrkun SEM komin VAR út í algjörar öfgar og það sáu menn nú ágætlega í bankastjórastólunum og háum stöðum í bönkunum, þar sem guttar voru í mjög háum stöðum ný skriðnir úr námi með himinhá laun. Samfélagið hefur þroskast að því leytinu til að menn hafa áttað sig á því að fullorðið fólk er tryggt og traust vinnuafl. Það er eitt af því sem er nauðsynlegt við uppbyggingu okkar samfélags að allir, alveg á sama hvaða aldrei þeir eru, læri að bera virðingu fyrir öllum störfum og að öll störf þarf að vinna. Og að ekkert starf er of ómerkilegt til þess að það sé ekki unnið. Það hafa bara allir gott af því að grípa í eitthvað sem er allt öðruvísi en það sem þeir eru vanir að gera hversdags. Það er enginn sem á að vera yfir eitthvað hafinn,“ segir Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur að Útskálum í viðtali við Víkurfréttir.
Viðtal & myndir: Hilmar Bragi Bárðarson