Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lífbjörg undir Berginu - manni bjargað frá drukknun
Maðurinn synti til hafs frá grjótgarði við smábátahöfnina í Gróf. Honum var bjargað um borð í björgunarbát þegar hann var að drukkna. VF-mynd: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 8. september 2019 kl. 00:28

Lífbjörg undir Berginu - manni bjargað frá drukknun

- Réðst á björgunarmann sinn með þungum höggum

Björgunarsveitarmaður var fluttur slasaður á sjúkrahús eftir að hafa bjargað lífi drukknandi manns undir Berginu í miðri flugeldasýningu Ljósanætur nú í kvöld.

Maður í annarlegu ástandi stakk sér til sunds af grjótgarðinum við smábátahöfnina í Gróf þegar flugeldasýningin stóð yfir í kvöld. Nærstaddir heyrðu manninn lýsa því yfir að hann ætlaði að synda til Hafnarfjarðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar björgunarbátur kom að manninum var hann að drukkna og var bjargað um borð í bátinn á elleftu stundu. Maðurinn var ekki sáttur við lífbjörgina og réðst á björgunarsveitarmanninn sem hafði dregið hann upp úr sjónum með þungum höggum. Björgunarsveitarmaðurinn lá óvígur eftir og var fluttur á sjúkrahús.

Þegar þetta gerðist var flugeldasýningin stöðvuð öðru sinni í kvöld en áhorfendur tóku eftir því að tvö löng hlé voru gerð á sýningunni. Fyrra skiptið sem sýningin var stöðvuð var þegar bátur sigldi inn á öryggisvæði á sjónum við Bergið. Svokallaðar sjóbombur eru sprengdar í flugeldasýningunni. Lokunarsvæðið hafði verið auglýst á meðal sjófarenda og einnig tilkynnt rétt fyrir sýninguna.

Haraldur Haraldsson hjá Björgunarsveitinni Suðurnes segir að atvikið undir Berginu í kvöld hafi verið klár lífbjörgun og sorglegt að maðurinn hafi veitt björgunarsveitarmanninum áverka.